Fullt var út úr dyrum á fundi Vinstri grænna í Reykjavík í gær þar sem fjallað var um málefni Ríkisútvarpsins og niðurskurð í menningarmálum. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, og Svanhildur Kaaber, formaður stjórnar RÚV ohf., sátu fyrir svörum og í tvær klukkustundir fóru fram líflega umræður um Ríkisútvarpið, hlutverk þess, rekstrarform og framtíð. Kvikmyndagerðarmenn fjölmenntu á fundinn og komu gagnrýni sinni varðandi niðurskurð til íslenskrar kvikmyndagerðar vel á framfæri. En þótt þær raddir hefðu ekki verið eins háværar þá voru þær líka sem gagnrýndu aðrar niðurskurðaraðgerðir RÚV þar sem gengið er bæði gegn byggðasjónarmiðum og kynjasjónarmiðum.

Sjónvarpslaust á fimmtudögum?

Þótt almennur skilningur sé í þjóðfélaginu á því að skera þurfi niður og það alls staðar þá var þessi fundur um RÚV til marks um vilja fólks til að taka þátt í umræðum um forgangsröðun. Sú rödd heyrðist utan úr sal að það hefði bara átt að skera flatt niður alls staðar, það væri sanngjarnast. Ég get ekki tekið undir þau orð. Á svona tímum verður að forgangsraða.

Sé Ríkisútvarpið tekið sem dæmi þá er ekki eðlilegt að skera alla liði flatt niður innanhúss því þannig gætum við eyðilagt alla dagskrárliði. Kolbrún Halldórsdóttir kom með ýmsar hugmyndir á fundinum í gær og kallaði eftir svörum um hvort þær hefðu verið skoðaðar. Má hafa einn sjónvarpslausan dag eins og hér áður fyrr? Er hægt að stytta dagskrá í báða enda? Og við það vil ég gjarnan bæta spurningum um hvort ekki mætti bara hætta að kaupa erlent efni meðan staða krónunnar er svo slæm sem raun ber vitni? Er ekki eðlilegt að Ríkisútvarpið sjái um það sem markaðurinn býður ekki upp á og telst ekki „fjárhagslega hagkvæmt” í framleiðslu? Þótt Ríkissjónvarpið hætti að kaupa bandaríska afþreyingarþætti þá hætta slíkir þættir ekki að verða til. Öðru máli gegnir um vandaðan fréttaflutning af landsbyggðinni og innlent sjónvarpsefni.

Bjóðast til að borga biðlaun útvarpsstjóra

Svona mætti halda lengi áfram. Ljóst var að meirihluti fundarmanna í gær (huglægt mat, vissulega, byggt á ræðum, klappi og húrrahrópum) ber ekki traust til útvarpsstjóra eftir framgöngu hans undanfarið. Hávær krafa var uppi um að hann ætti að víkja og svo langt gekk krafan að einn ræðumanna stakk upp á að kvikmyndagerðin borgaði biðlaun útvarpsstjórans með auka niðurskurði á þessu ári, þar sem niðurskurðurinn væri hvort eð er svo mikill. Vakti þetta mikla kátínu. Önnur krafa var að rekstrarformi RÚV yrði breytt. Bæði menntamálaráðherra og formaður stjórnar RÚV tóku vel í slíkar hugmyndir. Menntamálaráðherra lagði jafnframt ríka áherslu á að skapa þyrfti sátt um RÚV og sú sátt væri augljóslega ekki fyrir hendi.

Ljóst er að markaðsvæðing RÚV sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð að hefur ekki skilað neinu nema tapi á fjármunum og menningarauðæfum. Það er samt aldrei of seint að snúa þróuninni við. Og menntamálaráðherra nýtur ríks stuðnings í þeim verkum.