Hugtakið „pólitísk afskipti” hefur óneitanlega fremur neikvæða merkingu í hugum fólks. Oft eru slík afskipti tengd beint við spillingu, einkavinavæðingu eða eitthvað þaðan af verra.

En hvað eru pólitísk afskipti?

Pólitísk geta verið fremur máttlítil en þau geta líka verið kraftmikil. Tilraunir óbreytts þingmanns til að stöðva einhverja fjölmiðlaumfjöllun geta verið hlægileg en tilraunir embættismanns eða ráðherra sem kannski er besti vinur ritstjóra geta haft mikil áhrif. Slík afskipti verða þó aldrei alvarleg fyrr en ritstjórar eða aðrir sem ráða efnistökum fjölmiðla láta undan. Slíkt hefur vissulega gerst.

Sama má segja um þá tilhneigingu sumra ráðamanna að setja vini sína og velunnara í allar stöður. Sú tilhneiging hefur dregið úr trausti gagnvart íslenskri stjórnsýslu og ofan af því verður að vinda.

En pólitísk afskipti af öðrum málefnum geta verið mjög eðlileg. Þannig væri óeðlilegt ef heilbrigðisráðherra hefði ekki „pólitísk afskipti” af því hvernig staðið er að niðurskurði í heilbrigðiskerfinu. Íslenskur almenningur á nefnilega heilbrigðiskerfið og við kjósum okkar fulltrúa til sjá til þess að það virki þegar við þurfum á því að halda. Íslenskur almenningur á líka Ríkisútvarpið og okkar kjörnu fulltrúar eiga að sjá til þess að það virki sem almenningsútvarp. Það þýðir þó ekki að kjörnir fulltrúar eigi að hlutast til um fréttaflutning eða koma í veg fyrir umfjöllun af einhverju tagi.

Opinber hlutafélög í uppáhaldi

Það rekstrarform sem nú gildir um RÚV gerir það að verkum að menntamálaráðherra hefur nánast ekkert yfir hinu opinbera hlutafélagi að segja. Þannig getur ráðherra ekki sinnt sínu hlutverki gagnvart okkur sem borgum brúsann. Völdin eru hjá útvarpsstjóra. Stjórn RÚV ræður hann og hann ræður.

Opinber hlutafélög voru í miklu uppáhaldi hjá Sjálfstæðisflokknum og margur ríkisrekstur var settur í það form í þeirra stjórnartíð. Fyrir vikið minnkaði eftirlit hins opinbera með þessum félögum, en sem dæmi má nefna að fjárlaganefnd Alþingis fékk ekki ársfjórðungsuppgjör margra þeirra og kjararáð hafði ekki yfir launum yfirmanna félaganna að segja. Forstjórar voru þá kannski með laun (og eru sums staðar enn) sem voru langt yfir öllum skynsemismörkum. Þannig gat Páll Magnússon fengið ofurlaun og fínan jeppa í ofanálag.

Rekstrarformið breytti þó ekki því að þegar hlutafélögin fóru fram úr fjárlögum, eins og oft vildi verða, þá voru það auðvitað við, skattgreiðendur, sem þurftum að borga. Með öðrum orðum: Við borgum en höfum ekkert um starfsemina að segja. Henni ræður Páll (eða aðrir forstjórar eftir því sem við á). Og þegar skera á niður hjá RÚV þá er auðvitað snjallt að höggva þar sem fundið er fyrir. Þannig er gengið gegn byggðasjónarmiðum og jafnréttissjónarmiðum og ráðist að íslenskri kvikmyndagerð – því þar er fólk sem mun rísa upp. Svo segir Páll: Ekki benda á mig. Ég er búinn að skila jeppanum. Beinið reiði ykkar annað.

Pólitísk afskipti í þessu tilfelli myndu miða að því að setja Páli stólinn fyrir dyrnar. Fá fram upplýsingar um hvers vegna svæðisstöðvar verða fyrir valinu en ekki innkaup á þætti um örvæntingarfullar eiginkonur. Hvort það sé ekki tímaskekkja að ætla að vera með einn sérstakan landsbyggðarfréttatíma, fremur en landsbyggðarfréttir í bland við allt annað.

Markaðurinn sér ekki um þetta

Ef allir forsvarsmenn opinberra stofnanna léku sama leik og Páll Magnússon væri stutt í upplausn í samfélaginu. Forstjóri Landspítalans myndi loka geðdeild og biðja fólk að beina reiði sinni annað. Skólastjóri MA myndi setja 300 nemendur saman í bekk og segja fólki að beina reiði sinni annað. Forstjóri Flugstoða myndi tilkynna að eftirliti með borgaralegu flugi verði hætt þar sem það sé svo dýrt og segja fólki að beina reiði sinni annað. Þetta getur varla talist ábyrgðarfullur málflutningur.

Staða mála á Ríkisútvarpinu kallar á nýja og frjóa umræðu um hvaða svið stjórnmálin eiga að ná yfir og hvaða svið ekki. Ljóst er að markaðurinn „sér ekki um þetta” og lausnir markaðarins virka illa á opinberan rekstur. Það sem almenningur borgar fyrir hlýtur almenningur, í gegnum sína kjörnu fulltrúa, að hafa eitthvað að segja  um.