Mig langaði bara að skrifa ykkur því ég er orðin dálítið þreytt á ráðleggingum ykkar og mér þætti vænt um að fá nánari skýringar á því hvernig eigi að fara að því að byggja Ísland upp með sömu verkefærum og það var rifið niður. Hvað varðar nýjustu hugmyndirnar úr ykkar ranni um að skera niður menntakerfið um 20% – án þess að það “komi niður á afköstum” – og að lækka laun ríkisstarfsmanna vil ég segja eftirfarandi: 20% niðurskurður getur aldrei annað en “komið niður á afköstum”, því ekki var menntakerfið offjármagnað fyrir. Kannski á þetta við um skólana sem þið komið að og þá dettur mér í hug hvort 20% mætti ná með því að hætta að veita framlög til þeirra. Viðskiptaráð gæti þá eitt og sér rekið Háskólann í Reykjavík og Verslunarskóla Íslands. Hvernig hljómar það?

Síðan held ég þið ættuð að byrja á að lækka ykkar eigin laun áður en þið farið að amast yfir launum fólks sem er margt með margfalt lægri tekjur. Um leið gætuð þið dregið úr allri ykkar starfsemi og varið fénu í uppbyggingu samfélagsins, atvinnuúrræði fyrir fólk sem hefur misst vinnuna eftir að kerfið hrundi og auðvitað menntunina, sem þið svo stolt segist styðja með ráðum og dáð. Betri útlistingar gæti ég komið með hefði ég fundið ársreikning ykkar á vefsíðu ráðsins.

Með virðingu,

Halla