08.12.2012

Ég veit satt að segja ekki hvort mér finnst hún krúttleg eða fáránleg, vandlæting blaðamannanna  ‒ sem rita bókadóma um nýja bók Styrmis Gunnarssonar í DV og Fréttablaðið ‒ yfir vinnubrögðum þeim sem Styrmir lýsir á Morgunblaðinu fyrir áratugum. Fáránleg væri hún, þar sem ég hefði talið að allir blaðamenn þekktu sögu fjölmiðlunar á Íslandi nógu vel til að kunna slíkar sögur í hundraðatali, af fréttum sem voru sagðar og ekki sagðar, ýktar eða úr þeim dregið, ljósmyndum sem voru teknar sérstaklega til að gera lítið eða mikið úr hlutunum, allt eftir því hvað þjónaði þeim sjónarmiðum sem flokksblöðin vildu koma á framfæri. Krúttlegt gæti það kallast og hugsanlega tímanna tákn að upp sé vaxin kynslóð fjölmiðlafólks sem þekkir ekki þennan veruleika af eigin raun og finnst hann jafn fjarlægur og önnur hatrömm, pólitísk átök Kalda stríðsins hér á landi. Í öllu falli má spyrja hvort það sé slæmt af fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins að veita innsýn í þennan gamla tíma eða hvort það sé þvert á móti jákvætt að hann greini frá upplifun sinni af starfi flokksblaðanna á tímum Kalda stríðsins.

Þjónn hægri aflanna?

Ég hef ekki lesið bókina og legg því ekki dóm á efni hennar, en hitt er að í bókadómunum tveimur er að finna (auk hinna ýmsu fullyrðinga um Styrmi sem persónu) greinanlega söguskoðun á því hvernig Morgunblaðið þróaðist á árunum áður en Davíð Oddsson tók við ritstjórn þess. Þannig má lesa úr báðum bókadómunum að Styrmir hafi fyrst og fremst talið að Morgunblaðið ætti að vera flokkspólitískt málgagn fyrir áróður hægrisins. Síðan hafi tekið við skammur tími í lífi blaðsins þar sem það hafi orðið að góðum og hlutlausum fréttamiðli, nánar tiltekið undir stjórn Ólafs Stephensen.

Þessi söguskoðun fer fjarri minni upplifun, en ég vann á Morgunblaðinu á árunum 2003-2009 og þar af seinni hluta þess tímabils við pólitísk fréttaskrif. Saga Morgunblaðsins nær auðvitað mikið lengra aftur og aldrei voru tengsl þess og Sjálfstæðisflokksins slitin að fullu. Það sést best á því að ritstjórar blaðsins og aðstoðarritstjórar hafa nánast undantekningalaust verið félagar í þeim flokki.

Þrátt fyrir það þá var ljóst að Styrmi (þar áður í samstarfi við Matthías Johannessen) var mikilvægt að gefa út blað sem höfðaði til breiðs hóps lesenda, ekki aðeins flokksbundinna eða óflokksbundinna sjálfstæðismanna. Hann lagði áherslu á vandaðan fréttaflutning og að sanngirni væri gætt gagnvart ólíkum sjónarmiðum, sem og að ólík sjónarmið endurspegluðust á síðum blaðsins, þ.m.t. í pistlum blaðamanna.  Ennfremur var á þessum tíma lögð áhersla á metnaðarfulla  menningarumfjöllun, en lista- og menningarlífið á Íslandi hefur sannanlega ekki verið meðal dyggustu þjóna hægri-aflanna í tímans rás.

Með því er ekki sagt að Morgunblaðið hafi á þessum tíma verið gallalaust eða að samfélagsleg og pólitísk afskipti Styrmis hafi í öllu verið innan marka. Engu að síður þá má Styrmir, eins og aðrir, njóta sannmælis.

Hið meinta hlutleysi

Hvað Ólaf Stephensen áhrærir þá er hún líka umhugsunarverð söguskoðunin að í stuttri  ritstjórnartíð hans hafi Mogginn verið allslaus við nokkurn lit, hlutlaus í hvítvetna. Fyrir það fyrsta þá er þetta hlutleysishugtak sem tröllríður öllu í íslenskri blaðamennsku stórgallað. Þá fyrst er upp kominn vandi ef blaðamaður telur sig fullkomlega hlutlausan gagnvart viðfangsefni. Aukinheldur er erfitt að skilja hvernig Ólafur átti að geta talist hlutleysið uppmálað. Hann var alinn upp á Morgunblaðinu, starfaði þar frá 19 ára aldri, varð aðstoðarritstjóri 33 ára gamall og skrifar með zetu þótt hún hafi verið afnumin áður en hann byrjaði í skóla. Hann var formaður Heimdallar (eins og fleiri ritstjórar Morgunblaðsins) og hann var og er mjög tengdur inn í ýmsa valdahópa í íslensku samfélagi. Þess sáust stundum merki í ritstjórnartíð hans, bæði á Morgunblaðinu og á 24 stundum, og sjást enn í Fréttablaðinu.

Ólafur á sér líka marga kosti sem ritstjóri og fjölmiðlamaður, og þeirra má hann njóta. Hann er skipulagður og vel ritfær og var nútímalegri stjórnandi en forverar hans. Eins og af öðrum sem störfuðu á Morgunblaðinu lærði ég margt af Ólafi sem gagnaðist mér í blaðamennskunni og á öðrum vettvangi síðar meir.

Skilin milli hans og forvera hans í ritstjórastóli voru hins vegar fjarri því að vera svo afgerandi sem bókadómararnir halda fram. Eftir að Ólafur tók við upplifði ég í fyrsta sinn í starfi sem þingfréttaritari þætti sem leiddu til þess að ég missti traustið á því að ritstjórinn stæði með mér gegn þeim öflum og einstaklingum sem vildu ekki aðeins hafa áhrif á fréttaflutning Morgunblaðsins, heldur líka mannaval. Fyrir vikið varð sjálfsritskoðun mín meiri en nokkru sinni fyrr, en hún er einn af stærstu óvinum blaðamannsins.

Hvaða pottar krauma undir?

Það er gagnlegt að fjalla um íslenska fjölmiðla í sögulegu ljósi, sérstaklega með það að markmiði að skilja betur stöðu þeirra í dag. Og þá má velta upp mörgum spurningum. Ritstjórar tveggja stærstu dagblaðanna,  Morgunblaðs og Fréttablaðs, eru báðir úr Sjálfstæðisflokknum. Pólitísk skrif helgarblaðanna (Reykjavíkurbréf og Kögunarhóll) eru á hendi tveggja manna sem slógust um formannsstólinn í Sjálfstæðisflokknum árið 1991, hafa báðir hafa verið formenn þess flokks og forsætisráðherrar. Flokksblöðin lögðust af en eignarhald blaðanna (og síðar netmiðlanna) færðist þá á annarra hendi. Á sama tíma færðust völd að einhverju leyti úr stjórnmálum og inn í viðskiptalífið. Hvaða pottar krauma undir starfandi blaðamönnum í dag? Og hvaða höndum fer tíðarandinn um fjölmiðlun nú þegar ríflega tuttugu ár eru liðin frá því að Kalda stríðinu lauk?

Við höfum sannanlega ekki nálgast óskastað þegar kemur að frjálsri fjölmiðlun á Íslandi og að einhverju leyti varð bakslag með hruninu. Starfsumhverfi og -öryggi blaðamanna er í mörgu ljósárum á eftir því sem tíðkast í nágrannalöndunum. Þetta þarf að fjalla um af alvöru.

Bókadómana má nálgast hér:

“Innsýn í hugarfylgsni lítilla karla”

“Ógeðsleg innsýn”

06.12.2012

Birtist á Smugunni 29. nóvember 2012

Aðeins í tveimur ríkjum heims eru konur helmingur eða ríflega helmingur þingmanna, það er í Rúanda og Andorra. Á Íslandi hafa konur aldrei verið helmingur þingmanna. Eftir síðustu kosningar voru konur á Alþingi í fyrsta sinn yfir 40%, sem fer að nálgast það að geta talist ásættanlegt. Þeim hefur að vísu fækkað á kjörtímabilinu með brotthvarfi Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og stendur hlutfallið nú í 39,7%.

Í sögulegu ljósi hafa konur átt alltof litla aðkomu að ákvarðanatöku. Það myndi e.t.v. litlu skipta ef samfélagið væri ekki jafn kynjað og raun ber vitni. Við erum svo upptekin af því að skilja kynin að og eigna þeim sitt hvora eiginleikana að við merkjum þau bleikum og bláum litum frá því að þau koma í heiminn.

Breiður bakgrunnur

Kvenfrelsi er ein af grunnstoðum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Í því felst margt. Það mikilvægasta er sennilega að konur geti lifað frjálsar frá ógninni af ofbeldi, en fleiri þættir spila þar inn, þ.m.t. að konur hafi aðkomu að lýðræðislegri ákvarðanatöku til jafns á við karla. Svo er ekki í dag og hefur aldrei verið. Ein leið til að flýta fyrir nauðsynlegri þróun er að beita kvennakvóta.

Kvótar geta almennt verið erfiðir viðfangs, á hvaða grunni sem þeir byggjast, þ.m.t. kjördæmakvótar sem við beitum við Alþingiskosningar. En í kvótum felst líka viðurkenning á því að ákvarðanataka geti ekki verið á hendi eins samfélagshóps með einn og sama bakgrunninn.

VG nýtir kvóta til að tryggja að konur komist að á framboðslistum hreyfingarinnar. Þetta er ekki úr lausu lofti gripið. Ekki einasta er þörf á vegna takmarkaðarar aðkomu kvenna að ákvarðanatöku, svo sem áður er rakið, heldur hafa konur almennt komið verr út úr prófkjörum en karlar. Á því eru margar skýringar sem ekki verða raktar hér.

Hins vegar virðist þetta smátt og smátt vera að breytast innan VG og kjósendur velja konur á lista til jafns á við karla (sé litið til landsins í heild). Þetta er gleðilegt og gefur von um að ekki líði um langt áður en mögulegt verður að afnema kvótareglur við kosningu á framboðslista, þar sem þær hafa þjónað tilgangi sínum.

Jafnrétti á framboðslistum?

Nú bregður við að margir vilja túlka það sem svo að jafnt hlutfall kynjanna á framboðslista eigi að vera sérstakt kappsmál kvenfrelsishreyfingarinnar. Þess vegna eigi að færa karla upp um sæti og tryggja að þeir leiði lista til jafns á við konur. Tilfellið er hins vegar það að kvótunum var ætlað að greiða aðkomu kvenna að ákvarðanatöku, ekki að tryggja jafnt hlutfall kynjanna á framboðslistum, enda eru framboðslistar sem slíkir ekki vettvangur lýðræðislegrar ákvarðanatöku.

Það stendur upp á þá sem krefjast karlakvóta á framboðslistum að rökstyðja slíkar tillögur sínar. Og kannski mætti beina þeirri spurningu að öðrum flokkum sem nýtast við para- eða fléttulista hvaða markmiði kynjakvótar þeirra á framboðslistum eigi að þjóna.

06.12.2012

Birtist á Smugunni 22. nóvember 2012

Vinstri græn á Suðvesturhorninu ganga að kjörborðinu nú á laugardag og velja fólk á lista fyrir komandi Alþingiskosningar. Á þessum tímamótum er mikilvægt að líta um öxl og velta fyrir sér: Hvað hefur gengið vel og hvað ekki? Hvernig hefur okkur tekist að framfylgja stefnu VG í störfum okkar?

Í þessari grein langar mig að greina frá því hvernig stefnumál VG hafa náð fram að ganga á verksviði innanríkisráðuneytisins á undanförnum tveimur árum (og 2 mánuðum), eða síðan Ögmundur Jónasson tók við embætti innanríkisráðherra. Sjálf hef ég starfað með honum á þeim vettvangi.

Innanríkisráðuneytið varð til við samruna dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis 1. janúar 2011 en fram að því gegndi Ögmundur embættum beggja ráðherra. Innanríkisráðuneytið er því eitt af viðamestu ráðuneytunum hér á landi og heyra 45 málaflokkar undir það, þar á meðal mannréttindamál, samgöngumál, barnaréttur, sveitarstjórnarmál, dómsmál, löggæsla og útlendingamál.

Stefna Vinstri grænna byggir á fjórum stoðum: Félagslegu réttlæti, umhverfisvernd, kvenfrelsi og félagslegri alþjóðahyggju.

En hvernig hefur okkur gengið að framfylgja stefnu VG í málaflokkum innanríkisráðuneytisins, eða með öðrum orðum: Innanríkisráðuneyti + VG = sönn ást?

Félagslegt réttlæti

Í stefnu VG segir: Vinstrihreyfingin – grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar og uppruna.

Fyrir það fyrsta má vekja athygli á einu lykilhugtaki sem nú hefur sérstakan sess í íslenskri stjórnsýslu: Mannréttindi.

Áður var mannréttindum sinnt til hliðar við önnur verkefni en nú hefur orðið breyting þar á og hefur Ögmundur Jónasson mannréttindi í öndvegi í starfi sínu sem innanríkisráðherra. Unnið hefur verið markvisst úr þeim athugasemdum sem Ísland hefur fengið á alþjóðavettvangi um stöðu mannréttindamála hér á landi. Þær athugasemdir hafa öðru fremur lotið að misrétti milli karla og kvenna (og þá einkum að kynbundnu ofbeldi) og fangelsismálum hér á landi. Um hið fyrrnefnda er fjallað hér á eftir en varðandi hitt síðarnefnda þá hefur verið samþykkt að ráðast í byggingu nýs fangelsis, sem mun leysa af hólmi önnur fangelsi, s.s. Hegningarhúsið á Skólavörðustíg og Kvennafangelsið en þau uppfylla ekki kröfur um mannúðlegan aðbúnað fanga.

Mótun landsáætlunar í mannréttindamálum stendur nú yfir og hefur í því skyni verið efnt til opinnar umræðu um mannréttindamál, þ.m.t. um mannréttindi geðsjúkra, réttindi útlendinga utan EES á Íslandi, tjáningarfrelsi og lýðræði, trúfrelsi og ofbeldi gegn konum.

Sérstaklega hefur verið lögð áhersla á vandaða umræðu um lýðræðismál, þ.m.t. beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur. Endurspegluðust þessar áherslur Ögmundar í frumvarpi til sveitarstjórnarlaga þar sem kveðið er á um að ákveðinn fjöldi íbúa sveitarfélags geti farið fram á íbúaatkvæðagreiðslu um áríðandi málefni. Alþingi samþykkti frumvarpið en ákvað, andstætt því sem innanríkisráðherra vildi, að setja takmarkanir um þessar atkvæðagreiðslur.

Hvað trúfrelsi varðar liggur nú í annað sinn fyrir Alþingi frumvarp um lífsskoðunarfélög sem færir rétt lífsskoðunarfélaga til jafns á við trúfélög en í tvo áratugi hefur Siðmennt barist fyrir þessum breytingum.

Alþingi þarf jafnframt að taka afstöðu til tillögu Ögmundar um lénamál en í tíð fyrri stjórnvalda var lénið .is einkavætt. Með frumvarpi um lénamál er reynt að vinda ofan af þessari þróun og koma böndum á starfsemina, neytendum til varnar.

Alþingi samþykkti frumvarp innanríkisráðherra til breytinga á barnalögum en með þeim er kveðið skýrar á um réttindi barna, þ.m.t. varðandi forsjá og umgengni, og grunngildi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögfest. Ættleiðingamál hafa einnig verið tekin föstum tökum, eftir því sem kostur gefst á samdráttartímum. Komið hefur verið á ættleiðingasambandi við Tógó og ráðuneytið hefur átt gott samstarf við Íslenska ættleiðingu.

Þá hefur Ögmundur lagt fram frumvarp sem stoppar upp í göt á lögum um bann við áfengisauglýsingum og væntanlegt er frumvarp um happdrættismál en markmiðið með því er að takast á við þann mikla vanda sem spilafíkn er á Íslandi.

Í útlendingamálum var í tíð Rögnu Árnadóttur ráðist í aðkallandi breytingar á málefnum flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd (hælisleitenda). Þar hefur hins vegar ekki verið látið staðar numið því Ögmundur hefur boðað heildarendurskoðun á útlendingalögum og verður frumvarp lagt fyrir Alþingi von bráðar. Með því verður staða flóttafólks styrkt enn frekar og réttur útlendinga utan EES til að sameinast fjölskyldu sinni skýrður og bættur, svo dæmi séu tekin. Þá má nefna að strax haustið 2010 voru endursendingar hælisleitenda til Grikklands stöðvaðar vegna bágborins mannréttindaástands þar, sem hafði sætt mikilli gagnrýni.

Kvenfrelsi

Í stefnu VG segir: Hreyfingin vill samfélag þar sem bæði konur og karlar fá notið sín og hafnar því að sé mismunað eftir kyni.

Á Íslandi er kynjunum mismunað á afgerandi hátt og væri langt mál að lista það allt upp hér. Grófustu birtingarmynd kynjamisréttis er að finna í kynbundnu ofbeldi, þ.m.t. heimilisofbeldi, vændi, mansali, nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi.

Baráttan gegn þessu ofbeldi hefur verið í öndvegi í innanríkisráðuneytinu. Austurríska leiðin, um að fjarlægja megi ofbeldismann af heimili sínu, var leidd í lög og vinna er hafin við að fullgilda sáttmála Evrópuráðsins um ofbeldi gegn konum. Sáttmáli Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu gegn börnum hefur nú verið fullgiltur og á grunni þess sáttmála hefur innanríkisráðuneytið leitt vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum. Þar er fræðslu beint að börnum og fólki sem á samskipti við börn í starfi sínu.

Á haustdögum 2010 hófst í ráðuneytinu viðamikið samráð um meðferð nauðgunarmála þar sem saman komu allar helstu stofnanir réttarvörslukerfisins, grasrótarsamtök og aðrar stofnanir sem koma að málaflokknum. Á grunni þessarar umræðu hefur verið ráðist í margs konar aðgerðir, þ.m.t. fræðslu um kynferðisofbeldi í samvinnu við Evrópuráðið og lagadeild HÍ, samstarf við EDDU – öndvegissetur við HÍ um fræðilega rannsókn á meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu og nauðsynlegar lagabreytingar, s.s. varðandi greiðslu miska- og skaðabóta.

Þá hefur ráðuneytið, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti, staðið fyrir samráði og ráðstefnu um klám en þessa dagana er farið yfir niðurstöður þess.

Umhverfismál

Í stefnu VG segir: Almenningssamgöngur eru ódýr, umhverfisvænn og hagkvæmur kostur. Öllum ráðum þarf að beita til að auka vægi þeirra hvarvetna á Íslandi og gera þær aðgengilegar.

Með samningi innanríkisráðherra og fjármálaráðherra, ásamt Vegagerðinni og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, í maí 2012 var stigið afdráttarlaust skref í átt að eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Með því er áætlað að fresta stórum vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu en tvöfalda þess í stað hlut almenningssamgangna.

Þá hafa strandsiglingar verið boðnar út en ákall um þær hefur verið hluti af áherslum VG til langs tíma.

Félagsleg alþjóðahyggja

Í stefnu VG segir: Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu.

Hvað félagslega alþjóðahyggju varðar þá vísast m.a. til eindregnar afstöðu innanríkisráðherra til Evrópusambandsins og þeirra kapítalísku gilda sem það reisir stoðir sínar á, varnaðarorð og –aðgerðir gegn kaupum útlendinga á landi og áherslu hans á ábyrgt alþjóðlegt samstarf, sem fjallar um mannréttindi og bætt kjör. Þá hefur Ögmundur tekið afdráttarlausa afstöðu, sem mannréttindaráðherra, gegn þjóðarmorðum Ísraelsmanna á Palestínumönnum.

Sönn ást

Ég tel að gott vinstri grænt verk hafi verið unnið undir leiðsögn Ögmundar Jónassonar í innanríkisráðuneytinu (og þar áður í embætti ráðherra þeirra tveggja ráðuneyta sem runnu saman í innanríkisráðuneyti) og að full ástæða sé til að halda því áfram.

Okkar bíða ennfremur mörg brýn verkefni innan málaflokka innanríkisráðuneytisins, enda tekur tíma að móta og framkvæma stefnu í lýðræðislegu og opnu ferli, svo ekki sé talað um að breyta tíðaranda. Þess vegna er mikilvægt að vinstrimenn haldi áfram um stjórnartaumana.

Innanríkisráðuneyti + VG = sönn ást!