03.02.2010

„Getur hugsast að ráðherrann sé einfaldlega á móti því að farið verði í þessar framkvæmdir[virkjanir í neðrihluta Þjórsá]? Er ráðherrann þá e.t.v. vanhæfur þegar kemur að endurteknum úrskurðum um formsatriði í þessu máli?”

Þessari spurningu er varpað fram í grein á vef Samorku. Fréttablaðið vitnar í greinina í dag og segir hana vera eftir aðstoðarframkvæmdastjóra hagmunasamtakanna en það kemur hvergi fram á síðunni (sem þýðir væntanlega að aðstoðarframkvæmdastjórinn hefur skrifað greinina og þótt hún svo frábær að hann hefur sent út fréttatilkynningu).

En spurningin hlýtur að vera með þeim lélegri sem virkjanasinnar hafa teflt fram sem rökum fyrir óheftum virkjunum. Hvað þá með alla umhverfisráðherrana sem Ísland hefur átt og hafa verið hlynntir virkjunum úti um allar trissur? Voru þeir ekki vanhæfir? Eða er það að vera virkjanasinni hið eina sanna hlutleysi? (Alveg eins og hægri sinnaðir blaðamenn eru hlutlausir en ekki vinstri sinnaðir.)

Sá misskilur lýðræðið sem heldur að sú staðreynd að ráðherrar hafi skoðanir á því sem undir þá heyrir geri þá vanhæfa. Ráðherrar eru nefnilega valdir af Alþingi sem aftur er valið af þjóðinni. Og þeir eru valdir vegna skoðana sinna.

Sveitarstjórnum er ekki heimilt, frekar en öðrum, að fara á svig við lög bara af því að þeim kann að finnast lögin ósanngjörn. Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun á ekki að bera fé á sveitarstjórnir. Þess vegna hefur skipulagi vegna virkjana í neðrihluta Þjórsá verið synjað staðfestingar af umhverfisráðherra. Slíkt gera hæfir umhverfisráðherrar. Vanhæfir umhverfisráðherrar láta sér nægja að vera stimpilpúði fyrir Landsvirkjun og virkjanaglatt iðnaðarráðuneyti. Og kominn var tími til að einhver setti Landsvirkjun stólinn fyrir dyrnar.

03.02.2010

Úr frétt DV í dag:

„DV spurði Pál [Magnússon, útvarpsstjóra] einnig um bílinn sem hann hefur haft sem launahlunnindi í nærri þrjú ár og hvenær honum yrði skilað. Páll ætlar að skila bílnum á næstu dögum eða vikum en segir óljóst hvernig samningar takist um skil bílsins.”

Hversu flókið getur verið að skila einum jeppa? Hvaða samningar þurfa að takast um skil bílsins?

Nú er bíllinn væntanlega á álíka gáfulegum kjörum og Páll sjálfur, með 12 mánaða uppsagnarfrest. En á meðan Páll skilar honum ekki þá gerist fátt. Hann klappar sér samt á bakið fyrir að hafa skilað honum, eða réttara sagt, fyrir að hafa sagt ætla að skila honum, einhvern tímann. Það getur auðvitað tekið margar vikur.

01.02.2010

Í DV í dag segir að ástæða þess að Jóhönnu Vilhjálmsdóttur var sagt upp störfum í Kastljósinu hafi m.a. verið sú að eiginmaður hennar, Geir Sveinsson, er á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. „Það lá fyrir, þegar ég var að taka ákvarðanir um uppsagnir einstaklinga, að ef Geir yrði á fullu fyrir flokkinn fyrir borgarstjórnarkosningarnar þá yrði Jóhanna meira og minna vanhæf í þættinum,” segir Þórhallur Gunnarsson í samtali við DV.

Vafasamur rökstuðningur

Að vísu var Jóhönnu sagt upp störfum áður en prófkjör Sjálfstæðisflokksins fór fram og þess vegna var alls óljóst hvort Geir yrði meðal frambjóðenda á listanum, en það er önnur saga. Svipuð rök hafa væntanlega verið notuð gegn Þóru Tómasdóttur en systir hennar, Sóley Tómasdóttir, er borgarfulltrúi fyrir Vinstri græn og sækist eftir 1. sæti á lista í komandi kosningum. Reyndar hafa Jóhanna og Þóra væntanlega báðar verið „meira og minna vanhæfar” allan sinn starfsferil í Kastljósinu, enda var Sóley á lista fyrir fjórum árum og Jóhanna er dóttir Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem leiddi lista Sjálfstæðismanna í síðustu kosningum og er alls enginn nýgræðingur í pólitík.

Að nota ættartengsl sem rökstuðning fyrir uppsögnum er í hæsta máta vafasamt. Nóg hefur verið þrengt að tjáningarfrelsi blaðamanna svo að ekki eigi að þrengja að skyldmennum þeirra líka. Þótt færa megi rök fyrir því að Jóhanna hefði ekki átt að stýra umræðum þar sem eiginmaður hennar er þátttakandi er ekkert sem segir að hún hafi ekki verið fær um að stýra öðrum umræðum í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna. Sjálfsritskoðun er það öflugt tæki að hugsanlega hefði Jóhanna verið harðari við sjálfstæðismenn en við fulltrúa annarra flokka. Sama má segja um Þóru. Blaðamenn og þáttastjórnendur á að dæma af verkum sínum, ekki af fjölskyldutengslum.

Hver var í hvaða partíi?

Ætli yfirmenn á fjölmiðlum að hafa raunverulegar áhyggjur af tengslum fjölmiðlafólks við „valdið” væri nær að þeir litu í eigin barm til að byrja með, enda liggur þar ákvörðunarvaldið yfir efnistökum. Hvaða tengsl eiga yfirmenn á fjölmiðlum við fyrrum framámennina í viðskiptalífinu sem hafa nú tekið þjóðina með sér í löngu og dramatísku falli? Hver eru tengsl yfirmanna á fjölmiðlum við stjórnmálaflokkana og einstaka stjórnmálamenn? Hver er vinur hvers og hverjir voru í hvaða partíum? Höfðu þessi tengsl áhrif á efnistök í aðdraganda hrunsins?

Það er löngu kominn tími til að blaðamenn rísi upp gegn þeim hömlum á tjáningarfrelsi sem þeir búa við og standi saman í stað þess að grafa hver undan öðrum. Það að láta ekki í ljós skoðun þýðir nefnilega ekki að fólk hafi ekki skoðun. Þeir sem stjórna efnistökum fjölmiðla þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum áður en þeir ráðast á almenna blaða- og fréttamenn og þáttastjórnendur, hvað þá á skyldmenni þeirra.

← Fyrri síða