04.01.2010

Að því er fram kemur í frétt á Eyjunni vill hinn velkunni fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, að Ólafur Ragnar staðfesti Icesave samkomulagið. Ja hérna hér, hver hefði trúað því! Faglegt mat ráðherrans er að samningurinn sé sanngjarn og að ástandið á Íslandi verði enn verra ef Ólafur Ragnar neitar! Gott innlegg hjá ráðherranum.

Hér á landi halda áfram að koma fram hótanir um stjórnarslit. Ég hefði aldrei trúað því að hægt væri að hóta stjórnarslitum svona oft út af einu máli. En hvað veit ég?

Það er þó kannski helst til langt seilst að hóta forsetanum stjórnarslitum. Komi málið til þjóðaratkvæðagreiðslu þarf væntanlega líka að hóta þjóðinni stjórnarslitum. Og þá fara kosningarnar að snúast um eitthvað allt annað en Icesave, sem væri bagalegt, ekki síst fyrir okkur sem erum eindregnir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar en á sama tíma með efasemdir um Icesave samkomulagið.

02.01.2010

Úr frétt á Eyjunni:

„Fjölmiðlar í Bretlandi fylgjast með framgangi Icesave-málsins á Íslandi og bíða spenntir eftir því hvort forseti Íslands staðfestir lögin um ríkisábyrgð sem Alþingi afgreiddi í vikunn. Þannig segir stórblaðið Daily Telegraph að synjun forseta myndi valda skelfilegri milliríkjadeilu Íslands og Bretlands og tefla í tvísýnu lánasamningum Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.”

Enn á ný er skýrt hvernig Bretar og Hollendingar hafa beitt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í deilunni um Icesave.  Því var oft og iðulega neitað en nú reynir enginn að halda því fram að AGS sé hlutlaus alþjóðastofnun sem ekki gangi erinda einstakra ríkja. Þessu eiga Íslendingar að mótmæla harðlega. Og almenningur á Norðurlöndunum þarf að fá að vita með hverjum ríkisstjórnir þeirra hafa staðið í málinu.

Frétt Daily Telegraph

← Fyrri síða