31.12.2009

Meðalmánaðarlaun á Íslandi eru líklega einhversstaðar á milli þrjú og fjögurhundruð þúsund á mánuði. Það þýðir milli 3,5 og 5 milljónir í árslaun. Þegar einstaka stjórnmálamenn (þeir hinir sömu og kvarta iðulega undir launum kjörinna fulltrúa sem eru kannski tvöföld laun meðaljónunnar) fá 5-25 milljónir króna í styrki fyrir eitt einstaka prófkjör eða forval þá eru það háar fjárhæðir.

Það er fagnaðarefni að upplýsingar um fjármál stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka séu komnar upp á yfirborðið. Þannig á það að vera. Búsáhaldabyltingin heldur áfram.

21.12.2009

Almennt talið hef ég óþrjótandi þolinmæði gagnvart íslenskum bíómyndum. Væru sumar þeirra erlendar myndi ég aldrei leigja þær og hvað þá þræla mér í gegnum þær. Í gær leigði ég íslensku myndina Jóhannes sem skartar Ladda í aðalhlutverki. Blessunarlega var myndin aðeins 75 mínútur því að hefði hún lengri verið hefði ég sennilega ekki lokið við áhorfið. Jóhannes er eiginlega með leiðinlegri myndum sem ég hef séð lengi. Ég gæti þusað lengi um hina lélegu femme fatale klisju sem myndin hefst á og þá staðreynd að á meðan Ísland á fjöldann allan af frábærum, vel menntuðum og reyndum leikkonum þá er fegurðardrottning valin til að leika í myndinni. En það eru ekki einu leikstjóramistökin. Meira að segja reyndur leikari eins og Laddi verður ekki sannfærandi í hlutverkinu og hvað þá aðrir karakterar. Niðurstaða: Lélegt handrit. Léleg leikstjórn. Sóun á peningum.

17.12.2009

Áður en ég fór til Indlands heyrði ég mjög oft sagt að annað hvort elskaði maður landið eða hataði það. Það væri ekkert þar á milli. Nú eftir 5 vikna dvöl spyr ég sjálfa mig hvort ég elski Indland eða hati það. Ég hreinlega veit það ekki.

Indland er magnað land. Það er risastórt og eins og hinn helmingur ferðafélagsins Patreks tönnlaðist á þegar við hittumst árið 2004 í Kambódíu: Sjötti hver jarðarbúi býr á Indlandi. Það er alveg rosalega margt fólk. Stærð landsins og fjölbreytileiki er líka þannig að 5 vikur er akkúrat enginn tími til að kynnast landi og þjóð, eða öllu heldur þjóðum. Ég fór t.a.m. ekkert til suðurhlutans og heimsótti satt að segja aðeins fjögur af 35 fylkjum landsins. Mér finnst ég því eiginlega ekki vita neitt að ráði um Indland. Meira eins og ég hafi opnað box og eigi eftir að róta upp úr því.

Á Indlandi býr 1,2 milljarður manna. Þar er alls staðar fólk og það er eitt af því sem mér fannst magnað við landið. En hópaskipting er gríðarleg. Fólk skiptist í hópa eftir fylki, stétt, stöðu, kyni, trúarbrögðum o.s.frv. Samgangur milli hópa er oftar en ekki takmarkaður og hjónabönd milli fylkja eru t.d. ekki ýkja vinsæl, hvað þá milli landa. Þeir Indverjar sem ég eyddi hvað mestum tíma með voru á köflum mjög fordómafullir í garð samlanda sinna. Þeir höfðu sjálfir lítið ferðast um Indland og allt sem pabbi Nityu, vinkonu minnar, sagði þegar ég vildi draga hana til Amritstar og Varanasi var: Why? Sjálfur hafði hann á hvorugan staðinn komið, þrátt fyrir að sá síðarnefndi sé einn sá heilagasti í trúarbrögðum hans, hindúasið.

Nitya sjálf hafði heldur aldrei komið á þessa staði og spurði mig hvað í ósköpunum við ættum að gera þar. Nú það sama og við gerum hér, svaraði ég, skoða klaustur, borða góðan mat, vafra um markaði og svo framvegis. Hún kom með á báða staði og fannst það stórbrotið. Í Varanasi öðlaðist hún áhuga á sínum eigin trúarbrögðum og settist niður með einhverjum karli í góðan klukkutíma til að fá fræðslu. Sjálf er hún brahmini, sem er efsta stétt Indverja – prestastéttin.

Einhvern veginn þá er það sem mest er sjarmerandi við Indland líka það sem getur orðið mest óþolandi. Allt þetta fólk, hávaðinn, beljurnar, moldargötur, umferðin. Á góðum degi er þetta frábært. Á vondum degi alveg hræðilegt.

En sumt getur aldrei orðið frábært, hvort sem dagurinn er góður eða vondur: Feðraveldið og stéttskipting. Hvort tveggja finnst auðvitað um allan heim og er óþolandi en á Indlandi er það svo skýrt og og andstæðurnar eru svo miklar. Karlar dómínera algerlega í almannarýminu. Þeir eru alls staðar og á sumum stöðum sjást varla konur. Nánast öll mín viðskipti gerði ég við karla. Þeir eru leigubílstjórarnir, hótelstarfsmennirnir, þjónar á veitingastöðum og svo framvegis. Ég fór í fótsnyrtingu og hún var m.a.s. framkvæmd af karli.

Konum er markvisst haldið frá almannarýminu, bæði með skorti á salernisaðstöðu og með venjubundnum óttaáróðri um það sé ekki “öruggt” fyrir þær að vera einar á ferð. Ég reyndi oft að sannfæra Nityu með allri minni tölfræði að hún ætti ekki að hafa áhyggjur af strætisárásum. Þær væru mjög svo sjaldgæfar. En hún endurtók tvær hryllingssögur af konum sem hafði verið nauðgað á götum úti í þessu stóra landi. Ég benti á að á einum mánuði hefðu almenningsvagnar í Delhi drepið 15 manns en einhverra hluta vegna nær það ekki í gegn sem öryggismál. Mér var síðan allri lokið þegar ég þurfti að hóta að neita að fara með Nityu í siglingu á Gangesfljótinu til að fá hana til að klæðast björgunarvesti. Staðreyndin er nefnilega sú að Nitya kann ekki að synda.

Vissulega er þessi áróður ekki bundinn við Indland. Svona er þetta um allan heim og líka á Íslandi þar sem ógnin af nauðgunum og óttaáróður takmarkar frelsi kvenna. Þegar ég byrjaði að þvælast til framandi landa fékk ég oft að heyra að það væri hættulegt en aldrei komu almennilegar skýringar á í hverju hættan væri fólgin.

Stéttskiptingin og bilið milli ríkra og fátækra á Indlandi er sláandi og óþolandi. Ég á líka bágt með að þola myndina af mér með röð af svöngum og illa höldnum börnum á eftir mér biðjandi um peninga eða mat. Hvernig er hægt að neita svöngu barni um mat? Ég veit það ekki, en ég hef gert mikið af því. Ef ég var með eitthvað matarkyns á mér gaf ég þeim. En hverju breytir það? Eitt barn ekki svangt í 3 klukkutíma, samviska mín kannski aðeins skárri í smá stund, en milljón önnur eru svöng. Og hvað gerum við á Íslandi til að breyta því? Skammarlega lítið. Og hvað geri ég til að breyta því? Líka skammarlega lítið.

En hvað elska ég við Indland?

Ég elska allt þetta fólk. Litagleðina, fjölbreytnina, klaustrin, trúarbragðaiðkun, nýtnina, tónlistina, dansana, matinn, sjálfsbjargarviðleitnina. Lífið er alls staðar og dauðinn er alls staðar.

Og þótt ég hafi verið orðin uppgefin á bílflauti, sölumönnum, mengun og drullu, að ekki sé minnst á magaverki, þá veit ég að bráðum þarf ég að fara aftur. Til að skoða meira og skilja betur. Ég hlakka til.

03.12.2009

Mer fannst ekki gledilegt ad upplifa indverskt brudkaup, a.m.k. ekki thetta. Eg var thvert a moti mjog hrygg, thratt fyrir fallegu fotin, ljosin, tonlistina og dansandi folk. Thad var eitthvad svo skritid ad horfa a par ganga i hjonaband sem thekkist litid sem ekkert. Brudurinn skalf  ur kulda og gat ekki gengid ostudd vegna thungra skargripa.

Brudguminn var prins a hvitum hesti, og raunar var hann a hvitum hesti thegar vid gengum til athafnarinnar. Thau skiptust a blomsveigum og snerust i hringi uppi a palli eins og plastbrudhjon a kransakoku. Ekki vantadi dyrdina. En thau horfdust aldrei i augu. Hann brosti til vina sinna. Hun horfdi nidur og reyndi ad stoppa glamrid i tonnunum.

Thau eru nu gift og i kvold gistir hun i hans husi i fyrsta sinn. I dag kvaddi hun sina fjolskyldu og nu eignast hun nyja. Hun mun eflaust eyda meiri tima heima med tengdamodur sinni en eiginmanni sinum. Hann er einstaklingur en ekki hun. Hann ma fara ut thegar honum dettur i hug en ekki hun. Ef hun vill fara i ferdalag verdur henni fylgt. Og hun raedur thessu ekki sjalf.

Og eg er alveg rosalega glod ad vera faedd a Islandi inn i menningu sem leyfir folki ad velja fyrir sig.

Undanfarin vika hefur gert mig sifellt pirradri a tvennu: Fedraveldinu og stettskiptingu. Thannig er thraelahaldi og ardrani vidhaldid. Thad er otholandi.