07.10.2009

hrisgrjonÍ lok september í fyrra dvaldi ég eina helgi í Kaupmannahöfn með góðum samstarfskonum mínum af Morgunblaðinu. Við fórum út á fimmtudegi og urðum að sjálfsögðu strax sjokkeraðar yfir lágu gengi krónunnar. Í einfeldni minni trúði ég því að gengið yrði betra „á morgun” og tók þess vegna aldrei háar fjárhæðir út í einu. Krónan lækkaði hins vegar með hverjum deginum. Daginn eftir að við komum heim hrundi Glitnir og í framhaldinu allt íslenska efnahagskerfið – eins og spilaborg. Líklega var það spilaborg.

Mánudaginn 6. október 2009 var ég í fríi, enda átti enginn þingfundur að vera og ég átti inni frídag sem mig langaði að nýta mér. Ég vaknaði þann morguninn og borðaði ósaltan og mjólkurlausan hafragraut í morgunmat. Síðan sauð ég hrísgrjón. Einhvern tímann um sumarið hafði ég nefnilega tekið ákvörðun um að taka fimm daga kínverska hrísgrjónaföstu í október. Ástæðan fyrir tímasetningunni var sú að október var oft í rólegri kantinum á þingi og því gæti ég losnað við langa vinnudaga sem þingfréttaritari samhliða hrísgrjónaföstunni.

Eftir hádegi þennan mánudag byrjaði síminn að hringja og ekki þurfti nema meðalnæma manneskju til að átta sig á að eitthvað mikið var í bígerð. Klukkan fjögur var ég mætt niður í þing til að fylgjast með framvindu mála. Guð var beðinn um að blessa Ísland í beinni útsendingu, neyðarlögin voru sett og við tóku daglegir blaðamannafundir, mikil óvissa og brjálæðislegt áreiti. Ég þrjóskaðist við og borðaði ósölt hrísgrjón og drakk aðeins vatn og koffínlaust te alla þessa viku. Fyrir vikið virtist hún enn lengri en hún var.

En vikan leið og síðan árið. Og á einu ári gerðist það sem ég áður hefði talið ómögulegt: Ég hef misst vinnuna tvisvar sinnum. Einhvern veginn eru þessar aðstæður þannig að ég get varla annað en hlegið. Ég held samt ég sleppi því að fasta í október í ár.

04.10.2009

… við erum ekki í brotsjó eða fellibyl. Við erum ekki á leið fram af hengiflugi og við erum ekki í fjósi að moka flór. Það er ekki verið að skjóta á okkur og við þurfum ekki að sigla skútunni hratt og örugglega áfram. Við erum ekki á skipi. Við erum einfaldlega í djúpri kreppu, sem snertir okkur öll en sum meira en önnur. Og við þurfum að komast út úr henni án þess að eyðileggja samfélagið.

← Fyrri síða