07.08.2009

Steinsmugan vekur athygli á ótrúlegum auglýsingum 60 ára afmælisbarnsins, NATO, sem nálgast má í gegnum efnisveituna YouTube. Um er að ræða þrjár auglýsingar sem hefjast allar á stríðsástandsmyndum sem breytast svo í hamingjusamlegar myndir af barni sem dettur í fótbolta, ekki á flótta undan sprengjum, eða af flugeldasýningu, ekki loftárás. Undirliggjandi er hinn gamalkunni áróður um að hernaðarbandalög geti tryggt frið og öryggi.

NATO er vissulega í tilvistarkrísu (eins og lesa má um hér). Eitt er að vera með bandalag í tilvistarkrísu og annað er að vera með vopnað bandalag í tilvistarkrísu! Auglýsingarnar eru greinilega hluti af ímyndarherferð þar sem gamalkunnu óttameðali er beitt. Þær eru sérhannaðar til að framkalla gæsahúð og það verst er að það tekst. (Ég fæ alltaf gæsahúð af því að horfa á börn í fótbolta!)

Í þessu sambandi má vekja athygli á myndbandsupptökum sem eru öllu meira lýsandi fyrir starfsemi NATO. Þær má nálgast á þessari síðu og sýna m.a. loftárásir sem gerðar voru á Kosovó í nafni mannúðar. Hallelúja!

06.08.2009

Gljúfurleitarfoss

Gljúfurleitarfoss í Gnúpverjaafrétti

Í Helguvík standa nú yfir framkvæmdir vegna mögulegrar byggingar álvers á svæðinu. Þessar framkvæmdir eiga sér stað þrátt fyrir að ekki séu til peningar til að fjármagna byggingu álversins og þrátt fyrir að ekki sé til orka til að knýja það áfram. Auðvelt er að spá því að síðar verði sagt að orkan verði að fást þar sem framkvæmdirnar séu komnar svo langt.

Alþingi samþykkti rétt fyrir síðustu kosningar mjög svo vafasamt frumvarp sem heimilar iðnaðarráðherra að gera samning við Norðurál um að reisa og reka álver upp á 360 þúsund tonn, sem er 110 þúsund tonnum meira en umhverfismat gerir ráð fyrir. Jafnframt er opnað á skattaívilnanir fyrir álverið og allt annað en sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi. Vinstri græn greiddu ein flokka atkvæði gegn frumvarpinu.

Í síðustu hagspá Seðlabankans er beinlínis gert ráð fyrir álversframkvæmdum í Helguvík og sérstaklega tekið fram að lögin sem Alþingi samþykkti geti auðveldað fjármögnun þar sem þar sé “tryggð hagstæð skattameðferð”. Þá er einnig gert ráð fyrir að álverið í Straumsvík verði stækkað með tíð og tíma. Og aftur: Það er ekki til orka, það er ekki til fjármagn og í Hafnarfirði hefur lýðræðislegur meirihluti hafnað stækkun álversins í Straumsvík. Er þetta sett fram í hagspá Seðlabankans til að fegra stöðuna á Íslandi eða til að knýja virkjanaframkvæmdir áfram?

Framkvæmdir á fullu

Og hverjar eru afleiðingarnar af þessu? Jú, við neðrihluta Þjórsá eru ýmis konar undirbúningsframkvæmdir fyrir virkjanir í fullum gangi, þrátt fyrir að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé skýrt að ekki eigi að ráðast í virkjanir þar fyrr en rammaáætlun um verndun og nýtingu auðlinda liggur fyrir. Landsvirkjun hefur farið fram með miklum látum á svæðinu og beitt ýmsum vafasömum meðulum. Fyrirtækið hefur lýst því yfir að orkuna úr þessum þremur virkjunum í Þjórsá, sem lengi hafa verið á teikniborðinu, eigi að nota í annars konar starfsemi en álver. Þá vakna spurningar um hvað í ósköpunum eigi að virkja til að knýja álversbrjálæðið áfram. Virkjanir í Þjórsá, sem mikil andstaða er við, anna varla allri eftirspurninni.

Það hlýtur að vera kominn tími á að Íslendingar hugsi til framtíðar. Álverð fer lækkandi og gjaldeyrir hefur ekki skilað sér. Íslendingar sitja með öll eggin í sömu körfu og hafa eytt óhemjufjárhæðum í að búa til störf í álverunum. Þeim peningum hefði sannarlega verið betur varið. Væri ekki nær að hugsa hlutina upp á nýtt? Eða á söngur virkjanakórsins að byggja Ísland til framíðar?

Mynd fengin af Smugunni.
04.08.2009

Morgunblaðið heldur ekki vatni yfir því að í Svíþjóð hafi sex ungir jafnaðarmenn skrifað opið bréf í Dagens Nyheter til að hvetja skoðanasystkini sín til að láta af andstöðu við einkarekna grunnskóla. Þetta gaf tilefni til ítarlegrar fréttaskýringar og í framhaldinu Staksteinaskrifa þar sem Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, er dreginn inn í þessa umræðu og hann spurður hvort honum finnist sænski jafnaðarmannaflokkurinn hafa orðið græðgivæðingunni að bráð. (Fyrir þá sem ekki vita er kannski rétt að taka fram að Samfylkingin er systurflokkur sænska jafnaðarmannaflokksins, en ekki Vinstri græn).
Rökhugsunin í kolli Staksteinahöfundar hefur væntanlega verið eitthvað á þessa leið:

1)    Vinstra sinnað fólk er á móti einkaskólum
2)    Vinstra sinnað fólk er allt eins
3)    Sex ungir jafnaðarmenn tala á skjön við flokkinn sinn
4)    Það er fréttnæmt þegar ungir jafnaðarmenn skrifa greinar í blöð í Svíþjóð
5)    Þar af leiðandi hlýtur sænski jafnaðarmannaflokkurinn að aðhyllast einkaskóla
6)    Ögmundur er vinstri sinnaður maður
7)    Ögmundur verður að svara fyrir þessar skoðanir ungmennanna

Á sama tíma og Morgunblaðið hleypur á eftir greinaskrifum ungra, sænskra jafnaðarmanna berast önnur tíðindi frá Danmörku. Þar hefur nú sprottið upp umræða um einkarekin sjúkrahús, sem hafa fengið alltof háar greiðslur fyrir að meðhöndla sjúklinga og að sjálfsögðu eru það skattborgarar sem bera kostnaðinn. Þetta hlýtur að vekja athygli Staksteinahöfundar, ekki síst á krepputímum, eða hvað?

04.08.2009

Það er magnað að fara í ferðalög þar sem hver dagur verður öðrum betri. Þannig varð hin árlega ferð á Borgarfjörð eystri að þessu sinni. Í góðum félagsskap og ýmist blíðviðri eða brjálaðri rigningu gekk ég tæpa 60 kílómetra frá Seyðisfirði til Borgarfjarðar. Leiðin er vel merkt og að því leytinu til einföld yfirferðar.

Á Borgafirði beið okkar liðsauki sem bætti enn við frábæran félagsskap. Við dönsuðum, sungum og fórum með vísur, fram á nótt, jafnvel morgun. Ferðafélögum mínum kann ég hinar bestu þakkir, sem og gestgjöfum okkar á Borgafirði. Og viti menn, ég sá meira að segja fjöllin, sem gerist ekki oft!

Vonandi koma nokkrar myndir inn síðar.

← Fyrri síða