10.07.2009

Þróun atvinnuleysis er mjög svo eftirtektarverð en nú hefur Vinnumálastofnun birt nýjar tölur fyrir júnímánuð. Við upphaf bankahrunsins snarfjölgaði körlum á atvinnuleysisskrá og mátti m.a. rekja það til þess að byggingarframkvæmdir stöðvuðust. Síðustu mánuði hefur körlum hins vegar fækkað á atvinnuleysisskrá en konum fjölgað. Þannig jókst atvinnuleysi meðal kvenna um 4,6% í júnímánuði á meðan það minnkaði um 8,1% meðal karla. Enn sem komið er eru þó hlutfallslega fleiri karlar en konur á atvinnuleysiskrá en bilið minnkar stöðugt og nú standa karlar í 8,6% en konur í 7,4%.

Vissulega ber að fagna því að körlum fækki á atvinnuleysisskrá og þakka má það aðgerðum ríkisstjórnarinnar, m.a. er varða mannaflsfrekar framkvæmdir og hækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað í 100%.

Vaxandi atvinnuleysi meðal kvenna er hins vegar áhyggjuefni. Konur eru mun líklegri en karlar til að vinna störf á vegum hins opinbera og þessar tölur gætu gefið vísbendingar um að uppsagnir í þeim geira færist í aukana. Það er ekki aðeins áhyggjuefni vegna kynjavinkilsins heldur einnig vegna þess að vegið er að grunnstoðum velferðarkerfisins.

Best væri að stöðva þá þróun hið fyrsta, enda furðuleg taktík að segja upp fólki og halda á sama tíma alvöruþrungna fundi tækifæri í atvinnuuppbyggingu. Haldi þróunin hins vegar áfram á þessari braut er full ástæða fyrir stjórnvöld að fara að huga að atvinnuaðgerðum sem miða ekki bara að hefðbundnum karlastéttum.

09.07.2009

Fyrir rúmu ári síðan kom Allyson M. Pollock, prófessor við Edinborgarháskóla, til Íslands og flutti erindi á vegum BSRB. Ég fór ekki á fundinn en man eftir að hafa rennt lauslega yfir erindið. Nú las ég það aftur nýverið og get ekki annað en mæltmeð lesningunni, enda hægt að uppfæra margt sem þar kemur fram um einkavæðingu breska heilbrigðiskerfisins á einkavæðingarhugmyndafræðina almennt.

Meðal þess sem Pollock benti á var að með einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar sé verið að endurskilgreina almannasviðið sem einkasvið og reisa nýja múra til að halda almenningi utan þess. Nefndi hún dæmi um að við einkavæðingu í Bretlandi hafi verið lokað á aðgang almennings og þingsins að gögnum um heilbrigðismál, m.a. á forsendum viðskiptaleyndar. Fyrirlesturinn má nálgast í íslenskri þýðingu hér og ætti eiginlega að vera skyldulesning fyrir alla sem bera hag velferðarkerfisins fyrir brjósti.

08.07.2009

„Við ætlum að fara að bjóða upp á flókna fjármálalega gjörninga og fjármálalegar vörur fyrir stofnanafjárfestingar, fyrir viðskiptabankanna og fyrir ja, stóra fjárfesta.”

Svona komst þáverandi bankastjórinn og núverandi þingmaðurinn Tryggvi Þór Herbertsson að orði í viðtalið við RÚV síðla árs 2006 þegar fjárfestingabankinn Askar Capital var að fæðast.

Fréttamaðurinn, María Sigrún Hilmarsdóttir, fylgdi spurningunni eftir og bað Tryggva Þór um að nefna dæmi. Þá svaraði hann:

„Ja, við gætum til dæmis nefnt einhverjar afleiður sem eru tengdar fasteignum í öðrum löndum eða, já til dæmis.”

Þarna hafa áhorfendur sjónvarpsfrétta örugglega verið öllu nær um hlutverk Aska!

Þá kom fram að bankinn myndi fyrst og fremst þjónusta stofnanafjárfesta og Tryggvi Þór hélt áfram að útskýra:

„Eins og lífeyrissjóðir, bankar, stórir fjárfestar og annað slíkt. Menn sáu fram á það að það var þarna markaðseyða. Þarna var, þetta hefur verið þó nokkuð mikið um að erlendir aðilar hafa verið að bjóða upp á þessar vörur á, á markaðnum, fjármálamarkaði hér á Íslandi. Og einfaldlega við sáum fram á að þarna væri ónýtt tækifæri sem að við ætluðum, og við ætlum sem sagt að reyna að fylla í það gat. Við erum sem sagt ekki að fara í samkeppni við viðskiptabankana þannig að við munum verða í góðu samstarfi við þá alla.”

Þetta fréttaviðtal frá árinu 2006 er lýsandi fyrir “íslenska efnahagsundrið”. Búnar voru til “vörur” með flóknum nöfnum sem byggðu ekki á neinum verðmætum og látið var sem að þeir sem ekki skildu ruglið væru illa að sér.

Annars er gaman að geta þess að orðið gjörningur getur m.a. merkt galdrar. Kannski var það merkingin sem Tryggvi Þór vísaði til. Þeir ætluðu að selja fjármálagaldra.

07.07.2009

Árið 2001 gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn íslenska ríkinu ráð til að lækka skuldir hins opinbera. Þá hafði sjóðurinn vissulega hamrað stöðugt á því að einkavæða ætti bankana og Símann en til viðbótar var svo lagt til að líta ætti á fleiri svið í þeim tilgangi að lækka skuldir ríkisins -  einkum heilbrigðismál og menntun.

Ef þetta voru ráðin árið 2001, hver verða þá ráðin núna þegar Ísland tekur á sig gríðarlegar byrðar? Varla þarf mikla spádómsgáfu til að ætla að áður en langt um líður verði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn farinn að þrýsta á um einkavæðingu íslenska velferðakerfisins og menntakerfisins, enda hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að efasemdir séu uppi um hugmyndafræðina sem sjóðurinn hefur byggt sitt starf á.

Þá má líka minna á þá miklu herferð sem háð var gegn Íbúðalánasjóði og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tók ríkan þátt í. Seðlabankinn söng með en blessunarlega var ekki meirihlutavilji fyrir málinu á Alþingi. M.ö.o. voru Sjálfstæðismenn einir um að vilja einkavæða Íbúðalánasjóð.

Til gamans fylgir hér smá klausa úr áliti sendinefndar AGS frá árinu 2006 (í lauslegri þýðingu sem finna má á vef Seðlabankans):

“Nauðsynlegt er að umbreyta Íbúðalánasjóði hið fyrsta. Könnunarviðræður eru í gangi en þeim ber að hraða eins og kostur er. Óheilbrigð samkeppni á milli bankanna og hins ríkisstyrkta Íbúðalánasjóðs hefur grafið undan áhrifamætti peningastefunnar, aukið ójafnvægið í hagkerfinu að nauðsynjalausu og ógnað fjármálastöðugleika. Í nútíma iðnvæddu hagkerfi eins og á Íslandi þar sem eru samkeppnisfær einkarekin fjármálafyrirtæki á heimsvísu er engin þörf fyrir viðamikla þátttöku hins opinbera á húsnæðislánamarkaði. Breyting Íbúðalánasjóðs í einkarekna heildsölufjármálastofnun myndi varðveita mikilvæga stærða hagkvæmni í fjármögnun á húsnæðislánum. Reynslan erlendis frá hefur sýnt að mögulegt er að ná fram félagslegum markmiðum um tryggan aðgang að húsnæðislánum með skilvirkari og sértækari opinberum aðgerðum.”

06.07.2009

Hún er engin skemmtilesning greinargerðin með frumvarpi fjármálaráðherra um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingasjóðs innistæðueigenda til að standa undir skuldbindingum vegna Icesave. Þar kemur skýrt fram hversu illa var haldið á þessum málum í öllu óðagotinu sl. haust. Vissulega má segja að þeim sem ákvarðanir tóku og yfirlýsingar gáfu hafi verið nokkur vorkunn, enda stóðu þeir frammi fyrir stærri verkefnum en nokkurn þeirra hafði órað fyrir. Sé hins vegar tekið tillit til ábyrgðar þessara sömu manna á því hvernig komið var þá verður samúðin minni.

Hvers vegna er samið?

Málflutningur Sjálfstæðismanna í Icesave málinu vekur furðu. Bjarni Benediktsson er allt í einu farinn að daðra við þá grundvallarspurningu hvort Ísland eigi yfirleitt að borga. Það er ekki bara áhugavert vegna þess að hans menn hafi ítrekað lýst því yfir munnlega og skriflega að Ísland yrði að borga heldur líka vegna þess að Bjarni samþykkti sjálfur þingsályktunartillögu þess efnis að Ísland ætti að ganga til samninga við Breta og Hollendinga. Bjarni var þá formaður utanríkismálanefndar Alþingis og mælti fyrir meirihlutaáliti nefndarinnar þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að ganga til samninga. Aðeins einn þingmaður Sjálfstæðisflokks, Pétur H. Blöndal, greiddi atkvæði gegn tillögunni. Ekki nóg um það heldur hafnaði þáverandi meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þeirri sjálfsögðu breytingartillögu Péturs að bera ætti samningana í heild undir Alþingi. Bjarni Ben taldi það óþarft og sagði við það tækifæri:

“Fyrir liggur að þær viðræður sem í hönd fara og eru reyndar þegar komnar af stað byggja á ákveðnum sameiginlegum viðmiðum um það að hverju skuli stefnt. Málið hefur verið fellt í farveg pólitískrar lausnar. Þegar stjórnvöld leggja fyrir þingið tillögu með þessum hætti og óska pólitísks stuðnings er það auðvitað afar einkennilegt ef málið á þá að enda með því að umboðið sé þynnt út og í raun settur fyrirvari á þá samninga sem af stað eru farnir, en augljóst er að stjórnvöld hafa á grundvelli almennra reglna heimild til þess að ganga til samninga af því tagi sem hér er um rætt.”

Þetta varð til þess að nú hefur Alþingi ekki allan Icesave samninginn til umfjöllunar heldur aðeins ríkisábyrgðina.

Hvað  vilja sjálfstæðismenn?

Sama dag og þingsályktunartillagan var samþykkt, eða 5. desember 2009, samþykkti þingið gegn atkvæðum þingmanna Vinstri grænna að ríkisstjórnin skyldi taka lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Því til grundvallar lá sérstök viljayfirlýsing, sem ætti með réttu að kallast samkomulag eða samningur. Auk þess að setja Íslendingum ströng skilyrði um alla þá uppbyggingu sem hér fer í hönd, m.a. um að ríkið einkavæði bankanna að nýju og að gjaldeyrishöft verði afnumin innan tveggja ára, þá þarf engan sérfræðing í samningalestri til að sjá að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt hart að Íslendingum að ganga til samninga vegna Icesave-reikninganna.

Vegna forsögunnar vakna spurningar um hvers vegna sjálfstæðismenn fara fram eins og þeir gera í Icesave málinu. Getur verið að vilji þeirra einn sé að koma höggi á ríkisstjórnarsamstarfið við erfiðar aðstæður? Á ríkisstjórn sem er mynduð utan um það hörmulega verkefni að taka til eftir partíið sem sjálfstæðismenn buðu til. Og gefum okkur að sjálfstæðismenn fengju þetta sama verkefni, hvernig ætla þeir þá að standa að verki? Ætla þeir þá ekki að semja um Icesave og ganga þannig gegn öllum sínum fyrir yfirlýsingum? Það verður að teljast harla ólíklegt.

Það væri sannarlega ekki til góðs ef sjálfstæðismenn kæmust aftur í námunda við stjórnartaumana núna. Það er ekki bara vegna þess að þeir trúa enn á hugmyndafræðina sem hrundi til grunna í haust með tilheyrandi skuldasúpu heldur líka vegna þess að rannsókn og uppgjör á því sem átti sér stað á Íslandi í aðdraganda hrunsins verður að fara fram án aðkomu þeirra sem mesta ábyrgð á því bera.

Nú reynir á

Það er ljóst að miklar efasemdir eru meðal þingmanna um Icesave-samkomulagið. Kannski verður þeim efasemdum eytt í meðförum þingsins á málinu. Kannski ekki. Hvernig sem það fer verður að finna pólitíska lausn sem þingmenn sem flestra flokka geta unað við. Málið er einfaldlega það stórt að hefðbundin skotgrafahernaður og valdboðspólitík á ekki við (slík stjórnmál hafa satt að segja valdið nægum skaða í íslensku samfélagi nú þegar). Alþingi þarf tíma til að vinna málið vel og tryggt þarf að vera að allir þingmenn geti kosið eftir sannfæringu sinni. Nú reynir bæði á stjórn og stjórnarandstöðu að finna lausn, sem hefur hag almennings á Íslandi að leiðarljósi.

03.07.2009

Ein gáfulegasta ákvörðun sem ég hef tekið lengi var að fara úr bænum í nokkra daga og ganga yfir firði og fjöll á Ströndum. Landslagið var stórkostlegt og félagsskapurinn enn betri. Sennilega var þó eitt það besta við ferðina að detta út úr símasambandi og tala um himbrima og hveravatn frekar en Icesave og Evrópusambandið. Þakka ég náttúru og mönnum góðar móttökur.


Svanafjölskylda

Svanafjölskylda

Á næturstað

Á næturstað

Sólardagur

Sólardagur

Rigningardagur

Rigningardagur

ac3b0-ferc3b0alokum

03.07.2009

Heimsborgarinn fór í einn þann skemmtilegasta samkvæmisleik sem hann hefur prófað í fínu matarboði á Ströndum nýverið. Leikurinn var einfaldlega þannig að gengið var hringinn og hver og einn partígesta sagði hópnum frá einu atriði sem pirraði hann. Þetta finnst nöldurskjóðu eins og Heimsborgaranum frábær leikur og átti hann að sjálfsögðu erfitt með að velja hvað hann ætti að nefna, enda margt sem getur farið í taugarnar á siðferðispostula á borð við Heimsborgarann. Einna merkilegast þótti Heimsborgaranum að hann gat tekið undir allt sem fram kom við borðið, nema að erfiðara væri að opna undarennufernur en aðrar mjólkurfernur. Heimsborgarinn drekkur hvorki mjólk né undanrennu. Sjálfur minntist Heimsborgarinn á jeppa sem lagt er upp á gangstétt þannig að gangandi og hjólandi vegfarendur komast ekki leiðar sinnar, hvað þá hjólastólafólk eða fólk með barnavagna. Tóku veislugestir undir þetta þó að sumir vildu nú meina að það væri alveg jafnpirrandi að rekast á fólksbíla á gangstéttum.

Eftir pirringshringinn var síðan tekinn einn jákvæðnihringur, svona til að kolefnisjafna hitt fjörið. Heimsborgaranum þótti það gaman, en þó hvergi eins gaman og að fá að röfla.

← Fyrri síða