18.06.2009

Áhugaverðar umræður áttu sér stað á Alþingi nú  í kvöld. Fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpi sem felur í sér að engin laun ríkisstarfsmanna séu hærri en sem nemur launum forsætisráðherra. Mjög tímabær ráðstöfun, hefðu sumir sagt, en aðrir ekki. 

Sjálfstæðismenn notuðu nefnilega tækifærið og gagnrýndu  stjórnvöld harðlega. Þetta voru að sjálfsögðu sömu menn og kvarta almennt yfir því að hvergi sé skorið niður en þarna opinberaðist forgangsröðun þessa flokks mjög: Skera á niður, bara ekki hjá þeim hæstlaunuðu. 

Þannig varð útvarpsstjóri ríkur

Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart, enda bjuggu sjálfstæðismenn til það kerfi sem ól af sér ríkisstarfsmenn á svimandi launum. Að sjálfsögðu voru það ekki starfsmennirnir sem kenna börnum eða annast aldraða, nei það voru nokkrir einstaklingar – oftast karlar – sem skyldu tróna á toppnum. Þetta var gert með því að búa til svonefnd opinber hlutafélög utan um rekstur ríkisstofnana. Stofnanirnar, sem þá fengu að kallast fyrirtæki, voru ennþá eingöngu fjármagnaðar með fé skattborgara en í stað þess að láta laun æðstu stjórnenda heyra undir kjararáð var sérstökum stjórnum falið að ákveða launin. Þessi einfalda breyting hækkaði laun útvarpsstjóra úr 800 þúsund krónum og upp í hálfa aðra milljón.  Giska mætti á að fyrir þann pening hefði mátt ráða a.m.k. tvo blaðamenn eða þáttagerðarmenn inn til fyrirtækisins. Það var þó ekki aðeins útvarpsstjóri sem um ræddi heldur líka stjórnendur fyrirtækja á borð við Flugstoðir, Neyðarlínuna, Orkubú Vestfjarða og Keflavíkurflugvöll. Sjálfsákvörðunarlaunarétturinn náði þó einnig til fleiri stofnana sem eru alfarið eða að meirihluta í eigu ríkisins og má þar nefna Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið, Íbúðalánasjóð og Landsvirkjun. 

“Hæfir” karlar með tuttuguföld laun

Rökin sem sjálfstæðismenn settu fram eru gamalkunn. Til að ná í hæft fólk í þessi störf þarf að þeirra mati að borga svimandi laun. Að þessu sögðu þá hljóta þeir sjálfir að vera vanhæfir, enda finnst þeim þingmannalaunin vera alltof lág og meira að segja forsætisráðherralaun. Við þetta bættist söngur um að hæfa fólkið flýi land  og að með því að lækka toppana lækki ósjálfrátt laun í neðri stigum ríkisstofnanna. Þessi rökstuðningur byggir auðvitað á þeirri hugmyndafræði gamla Íslands að karlar á toppnum eigi ekki að fá tvöföld eða þreföld laun manneskjunnar á gólfi heldur helst tíföld eða tuttuguföld, af því að þeir séu svo svakalega hæfir. Einstaklingsdýrkun er kannski ágætt orð til að lýsa þessu. 

Lýðskrum og ódýr stig

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gekk meira að segja svo langt að saka ríkisstjórnina um lýðskrum og að vera að ná sér í “ódýr stig”. Þá taldi hann að þetta leiddi til þess að hið opinbera gæti ekki verið samkeppnishæft við einkageirann í þessum efnum. Nú veit ég ekki alveg í hvaða veruleika Tryggvi Þór lifir en á Íslandi varð bankahrun. Hálaunuðu, hæfu karlanir keyrðu allt í þrot með dyggri aðstoð Sjálfstæðisflokksins og hans hugmyndafræði. Einmitt þess vegna hafa laun lækkað, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum, og einmitt þess vegna þarf að skera niður með mjög óskemmtilegum afleiðingum fyrir íslenskt þjóðfélag í heild sinni. Að ætla að lækka laun heilbrigðisstarfsfólks, kennara og fólks í ummönunarstörfum og skerða greiðslur til lífeyrisþega, án þess að hrófla við fólki sem er með vel yfir milljón á mánuði hlýtur að vera hugmyndafræði sem Sjálfstæðisflokknum einum hugnast. Þess vegna kom það mér á óvart að framsóknarmenn skyldu taka undir þennan söng á Alþingi. 

Önnur hugmyndafræði

Þessi lagabreyting er í senn niðurskurðaraðgerð og réttlætismál. Hún sýnir að við völd situr ekki ríkisstjórn auðmanna heldur ríkisstjórn jöfnuðar. Ríkisstjórn sem vill jafna kjörin í landinu og reyna að hlífa þeim sem verst hafa kjörin, ekki þeim sem best hafa kjörin. Þannig byggjum við Ísland upp á nýtt.

16.06.2009

svandis-svavarsdottirguc3b0laugur-c3beor1

“Við þekkjum það að umhverfisráðherar hafa komið í veg fyrir atvinnu og störf …”. Einhvern veginn svona komst Guðlaugur Þór Þórðarson að orði í utandagskrárumræðum á Alþingi um nýtingu orkuauðlinda og uppbyggingu stóriðju. Það hefði verið gaman að fá aðeins nánari útlistun á því!

Guðlaugur kallaði eftir því að umhverfisráðherra beitti sér sérstaklega fyrir áframhaldandi álversuppbyggingu í Helguvík og á Bakka. Áhugavert verkefni fyrir umhverfisráðherra, gætu sumir sagt.

 Svandís benti m.a. á að ekki væri hægt að lofa orku til grænna starfa af því að öll orkan væri bundin við álver og satt að segja væri búið að gera áætlanir um álversbyggingar sem krefjast meiri orku en er í boði. Þetta sitjum við uppi með eftir stóriðjurétttrúnað síðustu áratuga. Hefði Sjálfstæðisflokkurinn – í samstarfi við Framsókn og síðar Samfylkingu – ekki keyrt áfram þessa brjálæðislegu stefnu stæðum við öllu betur í dag. Í fyrsta lagi ættum við stærsta ósnortna víðerni Evrópu. Í öðru lagi hefði þenslan ekki orðið svo mikil sem hún varð og þ.a.l. hrunið ekki eins slæmt. Í þriðja lagi værum við ekki með alltof mörg eggja okkar í sömu körfu, þ.e. í formi álvera á tímum þegar álverð fellur og fyrirtæki eiga erfitt með að fjármagna sig. Í fjórða lagi ættum við fleiri möguleika til að vinna okkur út úr erfiðleikunum sem við stöndum nú frammi fyrir, m.a. með því að nýta orku í umhverfisvæn störf. Svona gæti ég haldið lengi áfram.

Sennilega eru samfélagsleg áhrif stóriðjustefnunnar efni í heila bók. Þá vísa ég ekki aðeins til þeirra áhrifa þegar atvinna í heilu byggðarlögunum veltur á einu fyrirtæki heldur líka til þess hvernig baráttan í þágu stóriðjustefnunnar var háð. Það þekkja Austfirðingar og af því fékk ég smjörþefinn þegar ég bjó á Fáskrúðsfirði árið 2002.

 Annars var Svandís mjög kröftug í svörum sínum til Guðlaugs Þórs og félaga. Horfum til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

15.06.2009

iran-motmaeli1Íranskur almenningur stendur nú frammi fyrir kunnuglegum veruleika: Mótmæli eru bönnuð, lögreglu og her er beitt gegn mótmælendum, fólk er handtekið fyrir að “stefna öryggi borgara í hættu”, netaðgangur er takmarkaður, erlendir blaðamenn sendir heim og innlendir blaðamenn aðeins látnir óáreittir ef þeir þjóna hagsmunum stjórnvalda.

Erlendum fjölmiðlum hefur gengið misvel að miðla efni frá Íran. Þannig hafa blaðamenn BBC ekki getað sent allar sínar vidjóupptökur þar sem stjórnvöld hafa takmarkað internetumferð. Þetta gerir okkur sem fjarri erum ekki einfaldara fyrir að átta okkur á því hvað er um að vera.

Enn virðast mótmælin vera bundin við Teheran en þar búa í kringum 14 milljónir af þeim 60-70 milljónum sem byggja Íran. Á meðan mörg þúsund manns óðu út á götur og mótmæltu kosningaúrslitum, sem margir telja vera fölsuð, fór stór hópur stuðningsmanna Mahmouds Ahmadinejads líka út á götur og fagnaði sigrinum. Í brýnu skarst milli hluta þessara  hópa.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Írönum er sigað hverjum gegn öðrum. Klerkastjórnin gerir eins og fyrirrennarar hennar – keisararnir tveir sem réðu lögum og lofum frá 1925-1979 – deilir og drottnar. Meðan fólkið rífst innbyrðis þurfa stjórnvöld ekki að hafa eins miklar áhyggjur.

Tilraunir Írana til að koma á lýðræði voru brotnar á bak aftur alla 20. öldina og þannig virðist það eiga að vera áfram. Keisararnir undu því ekki að hafa þing sem tæki ákvarðanir og klerkarnir gera það ekki heldur. Engu að síður starfar þingið og síðan er kosinn forseti en yfir þessu öllu trónir 12 manna klerkaráðið, sem ræður því hverjir bjóða fram. Það segir satt að segja allt um forsetakosningarnar sem núna er deilt um að alls ekki gátu allir boðið fram sem vildu. Klerkarnir vinsuðu úr þá sem þeim voru þóknanlegir og það þarf vart að nefna að konur þykja þeim ekki hæfar til að bjóða fram til forseta.

Ali Khameini, æðsti klerkur, hefur nú sagt að skoða þurfi kosningaúrslitin. Hvernig það verður gert er síðan önnur spurning. Pottlokinu hefur verið lyft og undir niðri kraumar óánægja og gremja. Klerkarnir munu halda áfram að reyna að siga fylkingum hverri gegn annarri. Ef það tekst framlengist kannski valdatími þeirra. En vonandi er þeirra tími liðinn og vonandi tekur eitthvað betra við.

14.06.2009

 

iran-motmaeli

 

Það er erfitt að átta sig á umrótinu sem á sér nú stað í Íran eftir að Mahmoud Ahmadinejad var endurkjörinn forseti, að því er haldið er fram með 64% atkvæða. Í Teheran brutust út mikil mótmæli og héldu því margir fram að um kosningasvindl væri að ræða. Önnur eins götumótmæli hafa ekki sést síðan við byltinguna 1979 .

Íran er gríðarlega stéttskipt þjóðfélag og samgangur milli ólíkra stétta er mjög takmarkaður. Þannig hafa margir Teheranbúar aldrei farið til, og myndu aldrei fara til, hinnar helgu borgar Qom, sem þó er aðeins í um 120 km. fjarlægð. Daglegt líf þar er talsvert frábrugðið daglegu lífi í Teheran og lífsviðhorf geta verið allt önnur. Þess vegna er ómögulegt að átta sig á því hvort Ahmadinejad hafi allan þann stuðning sem birtist í niðurstöðu kosninganna, m.ö.o. hvort stóri hópurinn sem þusti út á götur og mótmælti sé hávær minnihluti eða hávær meirihluti.

Við byltinguna í Íran árið 1979 snerist stéttaskiptingin á hvolf. Yfirstéttin, sem hafði horft til Vesturlanda og lagt mikla áherslu á aðskilnað ríkis og trúarstofnana, var sigurvegari samfélagins fyrir byltingu. Engu að síður lifði stór hópur fólks sínu hefðbundna lífi til hliðar við kerfi keisaranna – sem vildu nútímavæða Íran eins og hratt og unnt var. Eftir byltingu snerist þetta við. Lífsstíll yfirstéttarfólksins varð ólöglegur og Íran skyldi vera íslamskt ríki.

Hættan er að næstu þjóðfélagsbreytingar í Íran verði ekki til þess að búa til frelsi fyrir alla heldur einmitt til þess að snúa hlutunum aftur á hvolf. Þá endurtekur sagan sig. Þess vegna væri æskilegast að gjáin milli stéttanna yrði brúuð og að í sameiningu myndi ólíkt fólk byggja upp nýtt og lýðræðislegt Íran. Útópía? Kannski …

Hvað sem öðru líður þá er ljóst að hvort sem kosningasvindl hefur átt sér stað eða ekki er undirliggjandi mikil gremja í írönsku samfélagi og fullkomið vantraust á kerfinu. Á næstu dögum kemur í ljós hvernig klerkastjórnin bregst við þessu og hvort hún fær áfram haldið um stjónartauma í landinu.

Hér má sjá upplýsandi vídjó af mótmælunum.

12.06.2009

… er ekki land þar sem þingmenn eru skyldaðir til að taka afstöðu gegn sannfæringu sinni.

Mæli með þessum pistli.

11.06.2009

<!– /* Style Definitions */ p.MsoNormal, li.MsoNormal, div.MsoNormal {mso-style-parent:”"; margin:0cm; margin-bottom:.0001pt; mso-pagination:widow-orphan; font-size:12.0pt; font-family:”Times New Roman”; mso-fareast-font-family:”Times New Roman”;} @page Section1 {size:595.3pt 841.9pt; margin:72.0pt 90.0pt 72.0pt 90.0pt; mso-header-margin:35.4pt; mso-footer-margin:35.4pt; mso-paper-source:0;} div.Section1 {page:Section1;} –>

Grein um atvinnusköpun og jafnréttismál

Birtist á Smugunni 11. júní 2009

Það sem mestu máli skiptir

Jafnréttisnefnd BSRB hefur beint tilmælum til ríkisstjórnarinnar og samningsaðila á vinnumarkaði um að standa vörð um velferðarkerfið. Jafnframt vekur nefndin athygli á því að starfsfólk innan velferðarkerfisins er í yfirgnæfandi meirihluta konur og að samdráttur þar bitni því harkalega á kvennastéttum. Orðrétt segir: „Mikilvægt er að stjórnvöld grípi til atvinnuskapandi aðgerða. Atburðarásin má hins vegar ekki verða sú að kvennastéttum sé ýtt út af vinnumarkaði við fjármögnun verkefna til að skapa ný störf fyrir karla.“

Þetta er sannarlega þörf áminning. Sagan kennir okkur að á samdráttartímum er hætt við að forgangsröðunin verði í þágu karla en ekki kvenna. Þá tala margir um nauðsyn þess að halda áfram að byggja háhýsi og stærðarinnar umferðarmannvirki, sem hafa mismikla þýðingu fyrir samfélagið í heild. Á sama tíma þykir sjálfsagt að höggva á grunnstoðir velferðarkerfisins með slæmum afleiðingum fyrir allt samfélagið. Íslendingar eiga ekki að falla í þennan pytt, þótt syrti í álinn.

Tvö stór atvinnumál

Stærstu atvinnumálin hér á landi eru tvö. Í fyrsta lagi verða stjórnvöld að standa vörð um störf á vegum hins opinbera. Fjöldauppsagnir á þeim vettvangi koma verst niður á láglaunuðum kvennastéttum og heildarsparnaðurinn fyrir ríkissjóð er takmarkaður. Umrætt starfsfólk fer á atvinnuleysisbætur og vari atvinnuleysið til langs tíma getur það leitt til heilsubrests.

Í öðru lagi skipta stýrivextir sköpum fyrir atvinnulífið í landinu. Ef þeir lækka ekki verða atvinnuskapandi aðgerðir til lítils.

Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að í öllu góðærinu var velferðarþjónustan fjársvelt. Þannig skiluðu sjálfstæðismenn heilbrigðiskerfinu af sér með ríflega tveggja milljarða króna skuldahala, þrátt fyrir að umtalsverður halli hafi verið greiddur upp. Það er því stórt og mikið verkefni að ráðast í frekari niðurskurð hjá stofnunum velferðarkerfisins. Í því sambandi þurfa áætlanir að vera raunhæfar og sanngjarnar. Við eigum ekkert val, enda hefur öflugt velferðarkerfi sjaldan verið mikilvægara. Förum að tilmælum jafnréttisnefndar BSRB og stöndum vörð um það sem mestu máli skiptir. Þannig er hægt að reisa Ísland við.

11.06.2009

Inga Þórsdóttir og Sigurður Guðmundsson skrifa góða grein í Morgunblaðið í dag þar sem þau árétta ýmislegt varðandi mögulegan skatt á sæta gosdrykki. Benda þau á að það sé hafið yfir allan vafa að mikil neysla á sætum gosdrykkjum tengist offitu og tannskemmdum og að sykur í gosdrykkjum sé skaðlegri en sykur í öðrum neysluvörum. Orðrétt segir í greininni:

„Árið 2007 var virðisaukaskattur af matvöru, þ.m.t. gosdrykkjum, lækkaður úr 24,5% í 7%. Samtímis var vörugjald á gosdrykkjum, 8 krónur á lítra, afnumið. Vörugjald var ekki tekið af ýmsum öðrum vörum. Gosdrykkir lækkuðu því einna mest í verði. Þessar aðgerðir voru beinlínis til þess fallnar að auka neyslu og virkuðu í reynd sem vörn gegn minnkandi neyslu. Vörn, vegna þess að almenningur veit meira og meira um hollt mataræði og vill því minnka gosdrykkjaneyslu, en gegn því vann verðlækkunin. Fræðsla um holla næringu er mjög mikilvæg, en verðbreyting hefur skjótari og meiri áhrif.”

Sársaukaminna en aðrar skattaleiðir

Þá benda Inga og Sigurður á að hátt verð minnki kaup á vöru og þá sérstaklega ef ekki er um nauðsynjavöru að ræða. Það væri fremur langsótt að halda því fram að sætir gosdrykkir gætu talist nauðsynleg næring. Niðurstaða fræðimannanna tveggja er einfaldlega sú að það geti ekki verið rétt að vernda óeðlilega lágt vöruverð á sætum gosdrykkjum. Sykurskattur á sætt gos sé sársaukaminni en margar aðrar skattaleiðir. Þannig getum við skapað tekjur fyrir ríkissjóð og verndað heilsuna um leið.

09.06.2009

Heimsborgarinn átti leið um Mosfellsbæ í morgun og ákvað að bregða sér inn í fína bakaríið þar í bæ. Þar sá Heimsborgarinn speltbollu á 110 krónur og bað um að fá slíka bollu með osti og þá helst tveimur ostsneiðum. Við því var orðið, að vísu smjöri skellt á líka að Heimsborgaranum forspurðum. Heimsborgarinn greip sér líka safa í fernu til að sötra með bollunni fínu. Hefði Heimborgarinn verið með kort en ekki peninga milli handanna hefði hann eflaust ekki tekið eftir verðinu en hann var hálfhvumsa þegar hann var rukkaður um 480 krónur. Spurði hann út í verðlagninguna og þá kom í ljós að bollan kostaði eftir smurninguna 360 krónur. M.ö.o. greiddi Heimsborgarinn 250 krónur fyrir tvær ostsneiðar! Og var að vonum ekkert sérstaklega hress með það.

09.06.2009

Jafnréttisnefnd BSRB hefur beint þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar og samningsaðila á vinnumarkaði að standa vörð um velferðarkerfið. Jafnframt vekur nefndin athygli á því að starfsfólk innan velferðarkerfisins er í yfirgnæfandi meirihluta konur og að samdráttur þar bitni því harkalega á kvennastéttum.

Þá segir í frétt á heimasíðu BSRB:

“Mikilvægt er að stjórnvöld grípi til atvinnuskapandi aðgerða. Atburðarásin má hins vegar ekki verða sú að kvennastéttum sé ýtt út af vinnumarkaði við fjármögnun verkefna til að skapa ný störf fyrir karla. Reynslan kennir að allt of oft hefur raunin orðið sú á samdráttartímum. Þannig hefur beinlínis verið ráðist í atvinnusköpun á kostnað kvenna.

Stuðla þarf að atvinnu fyrir alla, konur jafnt sem karla, og má atvinnusköpun ekki verða á kostnað starfsemi sem er samfélaginu öllu mikilvæg. Aldrei er eins mikil þörf á öflugu velferðarneti og á krepputímum. Höfum það hugfast. Eyðilegging á velferðarkerfinu bitnar ekki aðeins á samtímanum heldur einnig á komandi kynslóðum. Látum það ekki gerast.”

Þetta heitir að hitta naglann á höfuðið.

08.06.2009

Heimsborgarinn skellti sér í sumarbústað um helgina í nágrenni Stykkishólm. Bústaðurinn er í undurfögru landi og útsýnið  stórfenglegt. Stórir gluggar á húsinu voru því sannarlega vel til fundnir. Hins vegar voru þeir u.þ.b. það eina jákvæða við byggingun.

Heimsborgarinn getur vel játað að hann er miðaldra um aldur fram og á það til að vera heldur íhaldssamur þegar kemur að hönnun sumarbústaða. Bústaðir eiga að mati Heimsborgarans að vera úr timbri og helst að vera þröngir og kósí. Enginn er bústaður án góðrar bókahillu og helst á að vera svefnloft þar sem hægt er að koma hópi fólks fyrir á dýnum.

En bústaðurinn sem Heimsborgarinn var í um helgina var annars eðlis. Hann var að hluta til viðarklæddur en að hluta með gráu bárujárni. Innandyra voru svartar flísar á gólfum, forljótt leðursófasett og svo sjálfur tákngervingur hins meinta góðæris: Flatskjár. Á háaloftinu var síðan annar flatskjár og í stað nokkurra dýna var þar vondur svefnsófi, sem tók stóran hluta gólfplássins. Heimsborgarinn átti ekki orð og notaði að sjálfsögðu helgina í að tuða yfir þessu.

Til að gleyma sér ekki í neikvæðinni verður Heimsborgarinn þó að minnast á hversu ægifagur Stykkishólmur er. Heimsborgarinn gekk á Helgafell, sem hann hefur ekki gert í tæpa tvo áratug,i og þrátt fyrir að fellið sé lágt er útsýnið magnað. Nú bíður Heimsborgarinn spenntur eftir því hvort óskin sem hann bar upp á toppnum rætist.

Heimsborgarinn mælir því sannarlega með ferð í Hólminn, bara ekki hálfbárujárnsklæddu sumarbústöðunum.

← Fyrri síðaNæsta síða →