23.12.2007

Ræða flutt á útifundi að lokinni Þorláksmessugöngu
23. desember 2007

Kæru friðargöngugarpar,

Ég vil byrja á að þakka fyrir tækifærið að fá að ávarpa þennan fund hér í kvöld. Þakkir mínar eru ekki aðeins vegna þess að það sé gaman að fá að vera með ykkur, heldur jafnframt vegna þess að þegar ég vissi að ég ætti að flytja ávarp fór ég að hugsa, sem gerist því miður of sjaldan í amstri dagsins. Ég fór að velta því fyrir mér hvað ég gæti mögulega haft um frið að segja. Og hvers vegna kalla ég mig friðarsinna?

Fyrir nokkrum árum sat ég á netkaffihúsi í Bangkok, höfuðborg Tælands. Hópur ungs fólks sat fyrir framan tölvuskjá og fylgdist með körfuboltaleik í gegnum Netið. Á leið minni út staldraði ég aðeins við og í ljós kom að Ísrael var að keppa og þarna voru saman komnir nokkrir af þeim fjölmörgu Ísraelum sem leggja land undir fót þegar þeir hafa lokið herskyldu sinni.

Jafnaldri minn úr hópnum tók mig tali og eins og venjulega byrjuðum við á að skiptast á upplýsingum um heimaland, ferðalög, starf, nafn og aldur.
„Hvað ertu að gera í þessum bol?” spurði hann síðan og benti á Che Guevara bolinn sem ég var í.
Ég svaraði því til að ég hefði keypt hann sem minjagrip á Kúbu en Ísraelanum þótti ekki mikið til svarsins koma. „Ég ber enga virðingu fyrir þessum manni,” sagði hann og bætti við að Che Guevara hefði verið morðingi, drepið fjölda fólks.
Samræðurnar voru eiginlega hættar að vera vingjarnlegar.

Sjálfur var þessi nýi kunningi minn nýbúinn að sinna herskyldu sinni til tveggja ára.
Ég reyndi að eyða umræðuefninu en einhverra hluta vegna fórum við út í bollaleggingar um hvort einhvern tímann væri réttlætanlegt að drepa fólk. Þá sagði Ísraelinn: „Það er máltæki í Ísrael, sem segir, að ef einhver vaknar að morgni til að drepa þig, þá skaltu vakna fyrr og drepa hann.”

Þetta var einn margra Ísraelsmanna sem ég hitti á þessum slóðum.
„En er engin lausn?” spurði ég einn sem ræddi ástandið á heimaslóðunum við mig.
„Auðvitað, það er alltaf lausn,” svaraði hann
„Og heldurðu að það geti komist á friður?” spurði ég vongóð.

Hann hristi höfuðið. Hann hafði ekki von.

Annar sagðist vera með riffil í húsinu sínu enda byggi hann á Gaza. Þegar hann sá að mér svelgdist á sagði hann: „Þú veist ekki hvernig það er.”
Og hann hafði rétt fyrir sér, ég veit ekki hvernig það er.
Ég veit ekki hvernig það er að búa við stríðsátök. Ég hef séð sársaukann í augum fólks sem hefur lifað við stríð en ég er 26 ára, alin upp á Íslandi, og hef aldrei þekkt stríð.

Ég var barn og sá myndir í sjónvarpinu frá stríðinu í Kúweit. Af hverju er fólk að gera þetta? spurði ég, en það var fátt um svör.
- Getur ekki bara verið friður?
- Það er ekki svo einfalt, var viðkvæðið

En hvað er ekki svona einfalt? Að sleppa því að beita ofbeldi?

***

Stríðsátök kosta ekki bara lífin sem er fórnað á vígvellinum.
Ísraelarnir sem ég hitti á ferðalagi höfðu eytt tveimur árum af lífi sínu í hernum. Á sama tíma og ég byrjaði að mennta mig sem kennari og eyddi einu ári í útlöndum, sinntu þeir herþjónustu. Þeir höfðu ekkert val.

Til að halda úti her þarf að samþykkja að það geti í sumum tilvikum verið réttlætanlegt að beita ofbeldi og um leið að það sé réttlætanlegt að ríkið geri það. Til að fólk samþykki það þarf markvissa menningarmótun.

Ungt fólk sem sinnir herþjónustu, hvort sem er í Ísrael, Bandaríkjunum, Súdan, Finnlandi eða Kólumbíu, lærir gildi sem eru í hrópandi andstöðu við þær stoðir sem lýðræðið hvílir á.
Herinn byggir á stigskiptu valdakerfi og mjög harðri ímynd sem er því miður oft kennd við karlmennsku. Við hikum ekki, grenjum ekki og hlýðum skipunum að ofan án þess að spyrja. Karlmennskuímynd sem eyðileggur líf þeirra sem læra að lifa eftir henni, og jafnframt þeirra sem verða á vegi hörkutólanna.

Og hvernig verður þankagangur fólks sem fær þessi skilaboð á viðkvæmum mótunarárum? Mun þetta unga fólk leggja eitthvað gott og heilbrigt fram til samfélagsins?

Stundum er sagt að Ísland eigi ekki að halda úti her vegna þess að engin ógn steðji að landinu.
Það getur vel verið, en það gæti breyst á morgun.

En ég er andvíg því að íslenskum her verði komið á fót vegna þess að fátt er eins skaðlegt samfélagi fólks og sú harkalega menningarmótun sem óhjákvæmilega fylgir hernaðarrekstri.

Þegar við hér á Íslandi segjum við börn eða friðarsinna: Þetta er ekki svona einfalt, þá erum við að réttlæta stríð. Við erum að segja að í sumum tilvikum geti verið réttlætanlegt að beita ofbeldi.

Um leið drepum við vonina, vonina um að hvorki við né nokkrir aðrir í heiminum þurfi að búa við ofbeldi eða ógnina af ofbeldi. Og í staðinn kemur myrkur í augun sem segja: Það er engin von.

Við setjum okkur líka á háan stall; fyrst að minni kynslóð tókst ekki að byggja friðsælan heim þá tekst þinni kynslóð það ekki. Og samþykkjum um leið heim þar sem menn sjá sig knúna til að vakna snemma og drepa þann sem gæti drepið þá.

Það má kalla mig bláeygan, barnslegan ídealista, en ég trúi því einfaldlega að fólk geti lifað saman í friði. Ég hafna því að það sé réttlætanlegt að beita ofbeldi og ég hafna því að hernaðarbrölt sé besta leiðin í samskiptum ríkja.

Ég veit ekki hvernig það er að búa við stríðsátök. Og þannig vil ég hafa það áfram.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla, og friðar.

19.12.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 19. janúar 2008

 

Ísland er herlaust, Ísland er herlaust

 

Einu sinni var ég í svonefndri brígöðu á Kúbu. Veran þar gekk út á að fræðast um kúbverskt samfélag. Við unnum á samyrkjubúi á morgnana og fengum fræðslu um byltinguna eftir hádegi.

Í brígöðunni var okkur sagt að á Kúbu væri allt frábært. Þar væri menntun fyrir alla og fyrirtaks heilsugæsla. Ég kinkaði kolli.

Svo var aftur sagt að Kúba væri frábær. Þar væri menntun fyrir alla og fyrirtaks heilsugæsla. Ég kinkaði aftur kolli.

En svo var einu sinni enn sagt að Kúba væri frábær. Þar væri menntun fyrir alla og fyrirtaks heilsugæsla. Og þá fór ég að efast.

Klifunin sáði hjá mér fræjum efasemda. Nú er það alveg rétt að á Kúbu er menntun fyrir alla og ágæt heilsugæsla, en meðan þrástagast var á því var kannski eitthvað annað sem ekki var rætt.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég las í vikunni nýtt frumvarp utanríkisráðherra til varnarmálalaga. Tvær klifanir vöktu einkum athygli mína.

Sú fyrri er alls ekki ný af nálinni og hefur verið gegnumgangandi í íslenskum utanríkismálum allt frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar, þ.e. fullyrðingin um herleysi Íslands. Í frumvarpinu er sagt fjórum sinnum að Íslendingar séu herlaus þjóð.

Her og ekki her

Auðvitað eru Íslendingar að nafninu til herlaus þjóð og auðvitað er frábært að almenn samstaða sé um að ekki verði stofnaður íslenskur her. En stöðugt tal um herleysi verður hálfhjákátlegt þegar horft er til þess að hér hefur verið rekin hernaðarleg starfsemi í áratugi, auk þess sem Ísland tekur virkan þátt í hernaðarbandalaginu NATO. Eða er höfuðatriði hverrar þjóðar herliðið eða starfsfólkið þegar kemur að hernaðarlegri starfsemi?

Hin klifunin sem ég hnaut um tengist forræði verkefnanna sem um ræðir í frumvarpinu. Mikil áhersla er lögð á að varnir verði einungis tryggðar með samstarfi við önnur ríki og innan alþjóðastofnana. Það sé „eðli málsins samkvæmt“ á forræði utanríkisráðherra.

Þarna er tilgangurinn augljóslega að draga skýra línu milli dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins. Af umræðunum á Alþingi að dæma virðist Björn Bjarnason dómsmálaráðherra þó ekki líta svo á að frumvarpið breyti nokkru um starfsemi stofnana ráðuneytis síns. Hann hefur bent á að það sé engin ástæða til þess að halda úti sérstakri vaktstöð til að fylgjast með þeim merkjum sem tæki fyrrum ratsjárstofnunar afla. Slíkt eftirlit geti verið hjá flugumferðarstjórum jafnt sem vaktstöðinni í Skógarhlíð.

Björn sagði í umræðum um frumvarpið að engin ákvæði í því útiloki að staðið verði að eftirlitinu á þennan hátt. Samt sem áður á að koma á fót varnarmálastofnun sem á að sinna einmitt þessu hlutverki.

Í frumvarpinu er lögð mikil áhersla á mikilvægi þess að aðgreina almenna löggæslu frá landvörnum. M.ö.o. eiga borgaralegar varnir að vera aðgreindar frá verksviði varnarmálastofnunar. Varnarmálastofnun er því ekki borgaraleg, en hvað er hún þá?

Hvað með RIKK?

Það er kannski óþarfi að lesa of mikið í frumvarp sem er fyrst og fremst stjórnsýslulegs eðlis og jákvætt sem slíkt. Svo virðist samt sem byrjað hafi verið á öfugum enda. Eins og ritstjóri Fréttablaðsins benti á var fyrst tekin ákvörðun um fjárframlag til málaflokksins og síðan lagt fram stefnumótandi frumvarp. Þá eru niðurstöður starfshóps sem á að vinna hættumat fyrir Ísland ekki væntanlegar fyrr en næsta haust.

En að allt öðru. Önnur umræða um jafnréttisfrumvarp félagsmálaráðherra fór fram snemma í vikunni. Það er ákveðið gleðiefni að það hafi einkum verið skipan jafnréttisráðs sem deilt var um, auk hugmynda um vottun fyrir fyrirtæki, enda þýðir það að lending hefur náðst um afar mikilvæg skref í jafnréttisbaráttunni.

Hins vegar er varla annað hægt en taka undir með Kolbrúnu Halldórsdóttur um að vægast sagt sé undarlegt að gera ekki ráð fyrir að Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) eigi fulltrúa í ráðinu, enda er þar mesta fræðilega þekkingin á kynjamisrétti í samfélaginu.

Rökin um að leita þyrfti eftir fulltrúa frá félagi sem væri mótvægi við kvennahreyfinguna eru óskaplega rýr og ég sæi þeim beitt á öðrum stöðum, þar sem fremur hallar á konur.

Hvað sem öðru líður þá er frumvarpið að nálgast að verða að lögum og það er fagnaðarefni fyrir alla sem eru áfram um jafnrétti.

 

15.12.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 15. desember 2007

 

Kristileg orrusta og lambakjöt

 

Síðustu dagar fyrir þinghlé eru yfirleitt frekar kaótískir. Koma þarf fjölda mála í gegn, þingfundir standa lengi og dagskrá riðlast reglulega. Erfitt er að átta sig á hversu lengi fundur mun standa þann daginn, sem hefur ekki einungis áhrif á þingmenn, heldur allt starfsfólk þingsins sem og okkur blaðamennina.

En það er svo skrítið að það er eins og það lifni yfir þingmönnum á svona dögum. Þrátt fyrir að flestir séu sammála um að það sé alveg óhæft að bjóða fólki upp á þessi vinnuskilyrði skapast ákveðin stemmning, svona eins og í prófum í skólum landsins.

Fjárlög voru afgreidd í vikunni og ég verð að viðurkenna að mig er eiginlega hálfpartinn farið að langa í fjárlaganefnd. Ekki er það vegna yfirráða yfir peningum skattborgaranna eða af því að ég haldi að það sé gaman að funda eldsnemma á morgnana vikum og mánuðum saman. Nei, ástæðan er einfaldlega sú að meðlimir nefndarinnar hafa svo oft þakkað frábært og skemmtilegt samstarf undir dyggri stjórn Gunnars Svavarssonar. Og mér sem á hlýddi var eiginlega farið að líða eins og ég væri að missa af góðu partíi!

Trúðu á tvennt í heimi

Ég fjallaði um það í síðasta þingbréfi að þegar íslenskt mál væri rætt á Alþingi yrði stemningin alltaf hátíðleg og uppi höfð stór orð um stöðu tungunnar. Nú hef ég áttað mig á því að það sama á við þegar kristna trú ber á góma, nema að stóru orðin eru jafnvel enn stærri. Og þannig var það í utandagskrárumræðum í vikunni.

Málshefjandinn, Guðni Ágústsson, fór mikinn í ræðustóli: Vitnaði í vísu Steingríms Thorsteinssonar „Trúðu á tvennt í heimi“, þuldi upp úr þjóðsöngnum, hafði áhyggjur af því að vegið væri að sjálfum íslenska fánanum og kallaði eftir „varðmanninum vaska“, þ.e. dóms- og kirkjumálaráðherra, og varnarliði kirkju og kristni til þátttöku í „þessari mikilvægu orrustu“.

„Á guð að fara út úr þjóðsöngnum? Má hinn helgi kross ekki áfram prýða þjóðfánann? Þessa óþarfa umræðu ber að kveða niður strax,“ sagði Guðni og klykkti síðan út í seinni ræðu sinni með því að segja að heimilin þyrfti að styrkja á tímum „firringar, eiturlyfja, óreglu og grimmrar markaðshyggju“. Í framhaldinu talaði hann um stórfjölskylduna og lambakjöt á sunnudögum með brúnuðum kartöflum og rabarbarasultu.

Í allri dramatíkinni varð eini presturinn á þingi, Karl V. Matthíasson, rödd skynseminnar og gerði athugasemd við orðfæri Guðna. „Það væri ekki heldur í kristnum anda að fara að kveða niður þá sem tala gegn þjóðkirkjunni. Við búum í frjálsu samfélagi og það er sjálfsagt að gagnrýna þjóðkirkjuna,“ sagði Karl og áréttaði vitanlega mikilvægi kristilegs kærleika.

Það er varla annað hægt en að taka undir með Karli enda umburðarlyndið einn af hornsteinum kristninnar. Mér hefur líka alltaf þótt undarlegt að nota stríðsmál í trúarlegum tilgangi og menningarsvartsýniskenningar um að fjölskyldur séu í upplausn og allt á heljarþröm eru fullhátíðlegar. Hvað um allt góða starfið sem hefur verið unnið? Barist hefur verið gegn einelti í grunnskólum, börn eru hvött til að tjá sig um tilfinningar sínar og það er ekki lengur alfa og ómega karlmennskunnar að bíta á jaxlinn, halda kjafti og fá síðan útrás fyrir reiði sína á nánustu ættingjum. Þolendur kynferðisofbeldis fara sjaldnar með „leyndarmálin“ í gröfina og mikið er lagt upp úr því að fólki líði vel í vinnunni, oft með góðum árangri.

Má ekki ætla að þjóðin gæti bara orðið hamingjusamari með hverjum deginum? Og fer þjóðfélagið í alvörunni á hvolf þó að skólahald liggi ekki niðri vegna fermingarfræðsluferða?

Hitt er svo annað og ég persónulega er hjartanlega sammála Guðna um mátt bænarinnar og sannreyni það á sjálfri mér allt að því daglega. En það er líka mitt val og engin ástæða til að ætla að allir fari sömu leið í gegnum lífið.

Óskað eftir stærri stjórnarandstöðu

Undanfarna viku hef ég verið að reyna að plata þingmenn úr stjórnarmeirihlutanum til að ganga yfir í stjórnarandstöðuna. Þeir þyrftu ekkert endilega að skipta um flokk, bara „halda með“ stjórnarandstöðunni til að jafna leikinn.

Þetta var auðvitað meira í gamni en alvöru en engu að síður er stundum hálfdapurlegt að fylgjast með fámennri og ósamstaða stjórnarandstöðu.

Gott dæmi var umræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi samkomulag um vatnsréttindi í neðri hluta Þjórsár. Þarna var á ferðinni alveg klassískt mál sem stjórnarandstaðan gæti notað til að lemja á framkvæmdavaldinu. Fjármálaráðherra segir að hann sé sammála niðurstöðu Ríkisendurskoðunar, aðeins hafi verið um óklárað samkomulag að ræða, einhvers konar viljayfirlýsingu. Klók pólitík hjá fjármálaráðherra en hvernig spilar stjórnarandstaðan úr skýrslu Ríkisendurskoðunar um samkomulag sem var gert korteri fyrir kosningar og virðist hafa verið um ekki neitt?

Vinstri græn tóku málið upp í þinginu, enda var skýrslan unnin að þeirra beiðni, og gagnrýndu gjörninginn harðlega. En Vinstri græn stóðu næstum því ein. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknar, skrifaði auðvitað undir samkomulagið sem ráðherra svo að ekki mátti búast við stuðningi úr þeirri átt. Samfylkingin hefði gagnrýnt þetta harðlega í stjórnarandstöðu en situr nú hinum megin við borðið og þegir. Eini mögulegi bandamaðurinn var Frjálslyndi flokkurinn. Kristinn H. Gunnarsson gagnrýndi samkomulagið en Jón Magnússon kallaði lætin í VG storm í vatnsglasi. Og úr varð að framkvæmdavaldið slapp heldur billega og svo verður málið gleymt og grafið.

 

08.12.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 8. desember 2007

 

Duglegar flugvélar og íslenska tungan í góðum málum

 

Þegar íslensk tunga er rædd á Alþingi gerast flestir ræðumenn hátíðlegir. Samhljómur er um að tungan eigi í vök að verjast og að allir þurfi að leggjast á eitt við að vernda hana, enda sé það hún sem geri Íslendinga að þjóð.

Mér finnst síðasta fullyrðingin alltaf óþarflega dramatísk og í ofanálag er ég svo bjartsýn að halda því fram að íslenskan standi á styrkum stoðum. Börn og unglingar eru skapandi í málnotkun sinni og frá kennaravinum mínum heyri ég alls konar skemmtilegar sögur af ljóðalestri og jafnvel besta skáldskap hjá æsku landsins.

Það þýðir þó ekki að unnendur málsins geti setið með hendur í skauti sér, enda má einmitt þakka þeim ágæta stöðu tungumálsins.

Ég verð að játa á mig smá kvikindisskap. Ég hef stundum punktað hjá mér skondin ummæli sem falla á Alþingi og í þessum umræðum um tunguna fór ég að velta fyrir mér hvort ég ætti kannski að greina frá mannlegum tungumálamistökum þingmanna. Ég var ekki komin langt í þeim hugleiðingum þegar síminn hringdi og á línunni var Íslendingur, búsettur í Bandaríkjunum. Hann benti mér kurteislega á að ég hefði í frétt frá Alþingi gefið dauðum hlut vilja og vit og vísaði hann til fréttar um að orrustuflugvélum sé í sjálfsvald sett hvort þær séu vopnaðar eða ekki. Duglegar flugvélar það!

Þetta kom vel á vondan. Ég hef nefnilega ekki þá afsökun að ég sé óundirbúin í ræðustóli.

Þrátt fyrir þetta þá stenst ég ekki mátið að segja a.m.k. frá ónefndum framsóknarþingmanni sem lét þessi orð falla í ræðustóli: „Róm var ekki unnin á einum degi“. Og enn er ég að reyna að fá botn í þessa setningu úr nefndaráliti: „Tekjur ríkissjóðs eru vanáætlaðar og verða meiri en gert var ráð fyrir.“

Getur frelsi verið vopn?

Þingskapafrumvarp forseta Alþingis er mikið rætt þessa dagana en Vinstri græn standa ein flokka gegn því þó að efasemdarraddir um ákveðin atriði megi heyra í fleiri flokkum. Athugasemdir VG snúa aðallega að því að frumvarpið sé ekki lagt fram í sátt allra flokka sem og að umbætur á starfsaðstöðu þingmanna sé spyrtar saman við breytingar á þingsköpum. Ég verð að játa að mér þótti dálítið undarlegt að lesa um þessar áætluðu umbætur í greinargerð með frumvarpi um annað efni. Engu að síður hlýtur að teljast eðlilegt að fjallað sé um þessi mál samhliða breytingum á þingsköpum, enda hafa Vinstri græn sjálf sagt að ekki sé hægt að skerða ræðutíma nema að þingið, og þá ekki síst stjórnarandstaðan, séu styrkt verulega.

Mér hefur líka þótt dálítið undarlegur málflutningur hjá VG að nota orðið vopn yfir málfrelsi, eða hvernig getur frelsi verið vopn? Hins vegar mætti kalla málþóf vopn en persónulega er ég almennt á móti beitingu vopna.

Ég á líka dálítið bágt með að kaupa þau rök að ef ekki sé hægt að halda langar ræður á Alþingi geti mál runnið í gegnum þingið án þess að þjóðfélagið taki eftir. Ég vona a.m.k. að fjölmiðlar séu öflugri en svo, sem og þingmenn í að koma skoðunum sínum á framfæri.

Hins vegar má taka undir þau sjónarmið VG að fleiri breytingar þurfi að gera. Þingmenn verða að hafa nægilegan tíma til að kynna sér mál til hlítar og þá ekki síst stjórnarandstöðuþingmenn. Lýðræðið snýst ekki bara um að meirihlutinn ráði heldur líka að öll sjónarmið heyrist.

Frumvarpið er samt sem áður skref í átt að betra þingi og ég held að flest fjölmiðlafólk hljóti að fagna styttri og markvissari ræðum og snarpari skoðanaskiptum.

Jesú í Sjálfstæðisflokknum

„Jesú er greinilega genginn í Sjálfstæðisflokkinn,“ sagði sjálfstæðisþingmaður kankvís í vikunni eftir að VG hafði sakað Sjálfstæðisflokkinn um að selja sjálfum sér eignir á gamla hersvæðinu í Keflavík. Forsætisráðherra vísaði þessu á bug og tók sem dæmi að Þjóðkirkjan hefði verið meðal kaupenda, varla væri kirkjan Sjálfstæðisflokkurinn.

Í framhaldinu fór ég að velta því fyrir mér í hvaða flokki Jesú væri. Það vinnur óneitanlega með Sjálfstæðisflokknum að gamli presturinn minn er giftur inn í hann og svo á ég líka vin sem er prestur og er blár í gegn. En á móti kemur að Jesú virtist ekkert sérstaklega hrifinn af kapítalisma, a.m.k ekki í guðs húsi. Og svo þekki ég líka prest í Samfylkingunni!

En svo er auðvitað önnur spurning um hvort Jesú væri yfirleitt í Þjóðkirkjunni? Kannski væri hann bara í einhverjum vingjarnlegum búddistasöfnuði. Ég þori nú samt ekki að spyrja hvort hann gæti verið í Siðmennt enda myndi ég þá líklega fá báða aðila í stærsta deilumáli þessara daga upp á móti mér.

 

01.12.2007

Þingbréf

Birtist í Morgunblaðinu, 1. desember 2007

 

Stóra bláa og bleika barnafatamálið

 

Ég hef kannski aðeins of oft minnst á það í þessum dálki að þingstörf hafi verið daufleg það sem af er þingvetri. Blessunarlega þarf ég ekki að gera það í dag því vikan sem nú er að líða var langt frá því að vera viðburðalaus. Satt best að segja var þetta vika stórtíðinda.

Nú gætu lesendur haldið að ég væri að vísa til nefndarálits fjárlaganefndar um fjárlagafrumvarpið fyrir 2008. Eða jafnvel látanna vegna þingskapafrumvarpsins.

Nei, það var miklu stærra mál sem skók þingheim í þessari viku, og ekki bara þingheim heldur samfélagið allt!

Stundum er það þannig að minnst fer fyrir stærstu málunum. Hún var hvorki löng né íburðamikil fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur til heilbrigðisráðherra:

1. Hvernig hefur sú hefð mótast á fæðingardeildum opinberra sjúkrastofnana að nýfædd stúlkubörn eru klædd í bleikt en drengir í blátt og þeir auðkenndir með bláum armböndum og stúlkur með bleikum?

2. Telur ráðherra koma til greina að þeirri hefð verði breytt á þann veg að nýfædd börn verði ekki aðgreind eftir kyni með bleikum og bláum armböndum og að þau verði framvegis klædd í hvítt eða aðra kynhlutlausari liti?

Baksíða og í beinni

Og hvað gerðist?

Fjölmiðlar tóku þessa litlu fyrirspurn upp. Fréttin rataði á baksíðu Morgunblaðsins og Ríkissjónvarpið var í beinni frá fæðingardeildinni. Allt varð vitlaust í bloggheimum og ég leyfi mér að giska á að málið hafi verið rætt á allmörgum kaffistofum vinnustaða, a.m.k. lenti ég oftar en einu sinni í umræðum í matsal Alþingis og fékk vinsamleg skilaboð um að gert væri ráð fyrir að bleiki og blái liturinn yrðu efni næsta þingbréfs, sem þeir auðvitað eru.

„Hefur Alþingi ekkert betra að gera?“ spurði fólk yfir sig hneykslað. Þingmenn urðu súrir út í fjölmiðla fyrir að blása einmitt þetta mál upp og við fjölmiðlafólkið bentum aftur á almenning sem sýnir einmitt svona málum mestan áhuga. M.ö.o. fór málið í hring og allir voru hneykslaðir á einhverjum öðrum fyrir að sýna bláa og bleika litnum áhuga.

30 mínútna stórmál

Kolbrún Halldórsdóttir fékk sinn skerf af reiðilestrum fyrir að vera að eyða tíma sínum og annarra í þessa vitleysu og ætla mætti að þetta væri eina þingmálið sem hún hefur lagt fram á þeim átta árum sem hún hefur setið á þingi.

En látum okkur sjá.

Það er erfitt að ímynda sér að það hafi tekið Kolbrúnu sérstaklega langan tíma að koma fyrirspurninni niður á blað, 10 mínútur í mesta lagi. Þegar munnlegar fyrirspurnir eru teknar á dagskrá Alþingis má fyrirspyrjandi tala tvisvar sinnum, samtals í fimm mínútur, og ráðherra tvisvar, samtals í sjö mínútur. Öðrum þingmönnum er heimilt að gera stutta athugasemd í eina mínútu. Stundum gera 3-4 þingmenn athugasemd en þar sem þetta er stórmál er vissara að gera ráð fyrir fleirum. Myndu allir nýta ræðutíma sinn til fulls og átta þingmenn gera athugasemd þá tæki þetta mál samtals tuttugu mínútur í meðförum þingsins og þ.a.l. samtals 30 mínútur af þingmannsferli Kolbrúnar Halldórsdóttur.

Allir með skoðun

En hvers vegna allt þetta fjaðrafok út af svona „ómerkilegu máli“? Í hverri viku koma fram margar fyrirspurnir og þingmál sem margir myndu flokka sem lítilvæg.

Mögulega vakti þessi frétt svona mikla athygli því hún snertir svo marga. Sumir fögnuðu fyrirspurninni í von um að hún gæti breytt bláu og bleiku hefðinni, öðrum þótti alveg út í hött að breyta einmitt þessu og enn öðrum finnst bara yfirleitt leiðinlegt að heyra tillögur um breytingar. (Þó skal tekið fram að í fyrirspurninni kemur hvergi fram skoðun á hvort eigi að breyta þessu eða ekki.)

Ég á heima í fyrsta hópnum enda hefur mér alltaf þótt skrítin venja að skipta börnum á afgerandi hátt í hópa, hvort sem það er vegna kyns, litarháttar, þroska eða hvers annars sem okkur hefur í gegnum tíðina tekist að nota til að takmarka möguleika fólks. Bleiki og blái liturinn er nefnilega hluti af miklu stærri aðgreiningu. Litaskiptingin hjálpar okkur við að koma ómeðvitað fram við börn á ólíkan hátt og ýta undir ákveðna eiginleika hjá þeim sem síðar eru notaðir til að marka þeim hefðbundinn bás í samfélaginu, og einmitt þessum hefðbundnu básum er ég mótfallin.

En burtséð frá því hvað fólki finnst um bleiku og bláu fötin held ég að það sé óþarfi að hafa af því stórar áhyggjur að Alþingi sé algjörlega lamað vegna vinnu við svona „tilgangslaus“ mál.

Og fyrir þá sem finnst tímasóun að lesa um svona fyrirspurnir þá bendi ég á ágætan fréttaflutning margra miðla í vikunni af annarri umræðu um fjárlög, nýju frumvarpi um þingsköp og vangaveltum um kristilegt siðgæði í skólum.