Viðhorfspistill
Birtist í Morgunblaðinu, 16. september 2005
Ert þú femínisti?
Ert þú femínisti?” spurði ónefndur maður mig um daginn og í framhaldinu fylgdi löng rökræða um stöðu kynjanna á Íslandi í dag. Þetta er kannski ekki merkilegt nema vegna þess að ég hef átt þessa samræðu óskaplega oft. Viðmælendur mínir hafa verið á öllum aldri, af báðum kynjum og af ýmsu þjóðerni. Sumir hafa verið á sama máli og ég, aðrir ekki. Í þessu viðhorfi ætla ég því að svara nokkrum algengum spurningum sem ungur femínisti á uppleið þarf oft að svara.
Hvað er eiginlega femínisti?
Auðvitað er erfitt að skilgreina femínisma eins og svo margt annað en skilgreininginn sem Femínistafélag Íslands notast við er að femínisti sé kona eða karl sem veit að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill gera eitthvað í því.
Af hverju ertu femínisti?
Mér fyndist eiginlega skrítið ef ég væri ekki femínisti miðað við allt sem ég veit og hef reynt. Ég man ekki hvenær ég byrjaði að vera femínisti. Þegar ég hugsa til baka finnst mér það hafa verið strax í sex ára bekk að mér fannst hlutirnir eitthvað skrítnir. Kannski daginn sem ég gekk út á fótboltavöll og spurði strákana hvort ég mætti vera með. Mér var vísað á leiðtogann og hann sagði kalt nei, það gengi ekki upp. Það liðu tvö ár þar til ég þorði að spyrja aftur.
En snýst þetta alltaf um misrétti gegn konum, er ekki fullt af körlum sem verða fyrir misrétti líka?
Jú, auðvitað verða karlar líka fyrir misrétti. Sérstaklega þegar það er einhvern veginn fyrirfram ákveðið hvað karlar og konur eiga að gera í lífinu. Við byrjum strax þegar börnin fæðast að klæða þau í bleikt og blátt. Síðan þroskum við stráka í að vera sterkir og harðir en kennum stelpum að vera sætar og góðar. Skoðaðu t.d. lýsingarorðin sem við notum um börn og leikföngin sem við gefum þeim. Þetta er allt saman æfing fyrir fullorðinsárin. En hvað með strákinn sem vill ekki vera sterkur og harður og vill kannski vera í fimleikum eða baka köku? Hvernig tökum við honum? Sama má segja um stelpuna sem er með læti og hamagang. Við eigum ofsalega erfitt með að sætta okkur við það að börn hagi sér öðruvísi en við bjuggumst við og reynum oftar en ekki að breyta því, t.d. með því að skamma stelpur en ekki stráka fyrir að vera með læti eða neita að kaupa dúkkuvagna fyrir stráka.
En þurfa endilega allir að vera eins?
Einmitt ekki. En ég er hins vegar á því að fólk eigi að hafa sömu tækifæri. Það hefur þau ekki meðan við reynum að steypa manneskjur í ákveðin mót eftir því hvoru kyninu þær tilheyra.
Ég skil alveg að fólk sé að berjast fyrir réttindum kvenna úti í heimi þar sem raunverulegt misrétti á sér stað en ekki hér á Íslandi…?
Mér hefur alltaf þótt furðuleg röksemdafærsla að ætla ekki að berjast gegn ofbeldi hér af því að það er meira ofbeldi einhvers staðar annars staðar. Eigum við þá að segja samkynhneigðum að hætta að berjast fyrir réttindum sínum af því að í Íran er samkynhneigð ólögleg? Það er ekki jafnrétti á Íslandi þótt hlutirnir séu verri einhvers staðar annars staðar. En það er ekkert nýtt að fólk haldi því fram að jafnrétti sé komið eða að við séum aðeins hársbreidd frá því. Morgunblaðið hélt því t.d. fram árið 1926 að kvennaframboð ætti ekki rétt á sér þar sem jafnrétti væri á Íslandi og hefði verið lengi.
Er ekki kominn tími til að konur sæki fram sjálfar?
Ég get ekki betur séð en að konur séu í stöðugri sókn. Það þýðir ekkert að segja þeim endalaust að brjóta niður veggi ef það á samt að halda áfram að reisa þá.
En konur hafa nú oft gengið fyrir í ákveðin störf vegna kyns síns.
Er það? Mér sýnist einmitt vera algengara að karlar gangi fyrir í ákveðnar stöður vegna kyns síns. Margir halda að á Íslandi sé í lögum svonefnd jákvæð mismunun sem þýðir að ef karl og kona sækja um sömu stöðu þá á að ráða það kyn sem er í minnihluta í stéttinni eða fyrirtækinu að því gefnu að viðkomandi uppfylli lágmarksskilyrði. Þetta er ekki rétt. Hér á landi eru lög um jafnan rétt sem fela í sér að séu tveir einstaklingar jafnhæfir skal aðili af því kyni sem er í minnihluta fá stöðuna. Þess má geta að þetta á jafnt við um karla sem konur.
En af hverju vilja femínistar banna fegurðarsamkeppnir?
Fæstir femínistar vilja banna fegurðarsamkeppnir. Þeir setja hins vegar stórt spurningarmerki við það hvort hægt sé að keppa í fegurð og staðalímyndirnar sem slíkar keppnir þrífast á. Mér finnst eðlilegt að fólk mótmæli því sem því finnst rangt.
En er eitthvert raunverulegt misrétti á Íslandi?
Ég veit ekki alveg hvernig ég á að byrja að svara þessari spurningu. Launamisréttið er auðvitað það mælanlegasta af því að það er hægt að sýna fram á það með tölum. Síðan höfum við svörtustu hliðina sem er ofbeldi gegn konum, t.d. nauðganir og heimilisofbeldi. Konur eru langoftast þolendur slíkra brota og karlar gerendur. Svo er í raun allt þarna á milli. Það er eitthvað skrítið við það að karlar fari með svona miklu meiri völd en konur í samfélaginu. Þeir eru í miklum meirihluta stjórnenda, í meirihluta á Alþingi og jafnvel í meirihluta í stjórnunarstöðum í “kvennastéttum”. Mér finnst alveg út í hött að halda því fram að það sé hreinlega ekki nóg af hæfum konum á Íslandi. Líttu þér nær.
07.09.2005Grein um Stuðmannaball í Feneyjum
Birtist í Morgunblaðinu, 7. september 2005
Sveimað um síki
“UM SÍKIÐ sveima og læt mig dreyma um gondóla,” segir í texta við Stuðmannalagið “Söng fjallkonunnar” en segja má að textinn hafi ræst sl. helgi þegar Stuðmenn sóttu Feneyjar heim. Hátt í tvö hundruð Íslendingar fylgdu þeim og tóku þátt í galaveislu og grímudansleik í 14. aldar byggingu. Þetta var alvöru ferð með alvöru Íslendingum. Það var partístemmning í flugvélinni og klappað þegar vélin lenti á Marco Polo-flugvellinum í Feneyjum um miðjan dag sl. föstudag. Bílrúðan sem þurfti að skafa þegar lagt var af stað frá Íslandi gleymdist fljótt í 29 stiga hita og barinn við hliðina á hótelinu fékk strax viðurnefnið “næsti bar”. Gott að hafa örnefnin á hreinu þegar maður er á erlendri grundu.
Það tók lengri tíma að útskýra fyrir Íslendingi sem ekki tilheyrði hópnum að Stuðmenn væru í alvörunni komnir til Feneyja til að spila á dansleik. “Hver skipuleggur þetta?” spurði hann undrandi og við útskýrðum að ferðaskrifstofan Príma Embla hefði haft samband við Stuðmenn og nú væri brjálæðisleg hugmynd orðin að veruleika.
Stuðmenn voru ekki einu stórstjörnurnar sem heimsóttu Feneyjar þessa helgi. Alþjóðleg kvikmyndahátíð setti sinn svip á eyjarnar. Jeremy Irons heilsaði kumpánlega við morgunverðarborðið og Renée Zellweger splæsti vatni á lífverðina sína á “næsta bar”. Sagan segir að hún hafi hreinlega reynt við (þ.e. verið á sama stað á sama tíma) Ásgeir Óskarsson, trommuleikara Stuðmanna, sem var einmitt við barinn að sækja drykki fyrir sig og konuna sína. “Ég vissi nú bara ekkert hver þetta var,” sagði Ásgeir í samtali við Morgunblaðið og kannski ekki að furða enda leit Zellweger út fyrir að vera u.þ.b. 50 kílóum léttari en hún var í hlutverki Birgittu Jóns (e. Bridget Jones). Þegar Íslendingar rákust hver á annan á förnum vegi ræddu þeir auðvitað hvaða fræga fólk þeir “hittu” yfir daginn og ætla má að Íslandsvinum hafi fjölgað til muna.
Dansað eins lengi og mátti
Galakvöldverðurinn og dansleikurinn á eftir heppnaðist einstaklega vel. Fólk var uppstrílað og margir höfðu leigt sér búninga fyrir tilefnið. Allir fengu grímur til að bera og þjónustan var í samræmi við umgjörðina. Dansað var eins lengi og dansa mátti en þegar búið var að klappa Stuðmenn þrisvar sinnum upp höfðu borist jafn margar kvartanir enda er víst bannað að leika músík eftir miðnætti í Feneyjum.
Aðspurður um stemmninguna í ferðinni sagði Jakob Frímann Magnússon hljómborðsleikari að þetta væri ein skemmtilegasta ferð sem Stuðmenn hefðu farið enda borgin glæsileg sem og föruneytið. Ekki er ofsögum sagt að allir aðrir Feneyjafarar hafi verið á sama máli enda var bros á nánast hverju andliti þegar haldið var heim á leið seint á sunnudagskvöld.