18.07.2005

Grein um Stuðmannaball í Grímsey
Birtist í Morgunblaðinu, 18. júlí 2005

“Grímsævintýri gerast enn”

Stuðmenn héldu til Grímseyjar um helgina til að efna nítján ára gamalt loforð við eyjarskeggja. Halla Gunnarsdóttir slóst í för með bandinu til að athuga hvort það væru ekki allir með allt á hreinu.

“GRÍMSÆVINTÝRI gerast enn,” sagði Valgeir Guðjónsson, stuðmaður, á eftirminnilegu balli í Grímsey. Svona hófst umfjöllun Sveins Andra Sveinssonar, þáverandi blaðamanns, í Morgunblaðinu 29. júlí 1986. Sveinn fylgdi bandinu eftir í þessari stórmerkilegu ferð enda ekki oft sem “heimsfrægar” hljómsveitir leggja leið sína til Grímseyjar.

Í lok umfjöllunarinnar er haft eftir Stuðmönnum að Grímsævintýri sem þetta skyldu verða árleg þaðan af.

Eitthvað eru árin lengri hjá Stuðmönnum en öðrum landsmönnum því það var ekki fyrr en núna, nítján árum síðar, að loforðið var efnt. Í þetta skipti var enginn Valgeir með og idolstjarnan Hildur Vala komin í stað Röggu Gísla.

Veðurguðirnir eru greinilega með Grímseyingum í liði því þeir skiptu þokunni út fyrir sól og blíðu rétt á meðan flugvélin frá Akureyri flutti Stuðmenn og fylgdarlið yfir hafið.

Eftir að hafa verið sannfærður um að Stuðmenn væru aðalhljómsveit landsins tók sænskur ferðamaður nokkrar myndir af bandinu á flugvellinum en síðan kom hópurinn sér þægilega fyrir á gistiheimilinu sem er einmitt staðsett við hliðina á flugvellinum.

Allir fóru suður

Stuðmenn eru mikið fyrir hefðir og héldu því fyrst fjölskyldutónleika og má ætla að hvert einasta barn í Grímsey hafi litið inn og sungið með. Hildur Vala hafði ekki undan að gefa eiginhandaráritanir en “kallarnir” sluppu nokkurn veginn við það.

Stuðmenn sýndu það og sönnuðu að þeir eru hljómsveit allra aldursflokka. Ýmist var söngvarinn dansandi við börnin eða börnin fengin upp á svið að syngja í kór. Gleðin skein úr hverju andliti og vart mátti í milli greina hvorir skemmtu sér betur, áheyrendur eða hljómsveitin.

Eftir fjölskyldutónleikana fengu Stuðmenn smá pásu og var liðið þá drifið yfir í næsta hús þar sem vel var veitt af öllu sem þarf til að gera gott kvöld enn betra. Megas var allt í einu kominn á fóninn og þau allra hressustu farin syngja hástöfum. Aðrir létu sér nægja að hanga í eldhúsinu eða stofunni og ræða eitthvað gáfulegt eins og femínisma eða nýjustu plötuna hans Ragga Bjarna.

Fastlínusíminn hringdi og gestgjafinn stoppaði teitina: “Það er verið að hringja úr félagsheimilinu og spyrja hvort Stuðmenn ætli ekki að fara að byrja að spila. Fullt af fólki mætt á staðinn.”

“Eigum við þá ekki að fara að drífa okkur suður eftir,” heyrðist úr einu horni.

“Suður eftir?” spurði fávís blaðamaður að sunnan.

“Já, suður í félagsheimili,” var svarað.

“Er það ekki hérna við hliðina?”

“Jú, einmitt, þú varst þar áðan.”

Svo dreif hópurinn sig suður.

Tónleikagestir fleiri en íbúar

Vel á annað hundrað manns sá Stuðmenn í Grímsey en það fer auðvitað eftir því hvaða mælikvarði er notaður hvort hægt er að kalla það fjölmenni. Stuðmenn eru vanir að spila á stórum tónleikum en sé grímseyskur mælikvarði notaður er rétt að benda á að mun fleiri sáu Stuðmenn en eru yfirleitt búsettir á eyjunni.

Grímseyingar kunna svo sannarlega að skemmta sér. Stemmningin var eins góð og hún getur orðið. Samvinna ólíkra fjölmiðla náði áður óþekktum hæðum á dansgólfinu og allt í einu var Hildur Vala komin á gólfið að stappa niður fótum og hrópa: Meira! Meira! Engu líkara var en að hún hefði gleymt að hún væri hluti af hljómsveitinni.

Að ballinu loknu tók við píanóleikur og söngur í næsta herbergi og hefðbundið, “reykvískt” stress um að rýma húsið var víðs fjarri. Þau allra hörðustu voru að langt fram undir morgun en smám saman færðist ró yfir eyjuna þótt kríurnar héldu sínu gargi áfram.

Fólk var kannski ekki alveg eins upplitsdjarft næsta dag en engu að síður bros á hverju andliti og alls staðar var talað um hvað það var “rosalega gaman í gær”. Stuðmenn kvöddu Grímey í tveimur hollum og héldu sjóleiðina til Hríseyjar þar sem skemmt skyldi á fjölskylduhátíð. Gamansögurnar gengu í allar áttir í fyrri bátnum en sagan segir að í seinni ferðinni hafi menn verið heldur sjóveikari og sumir verið fram á kvöld að jafna sig.

Blaðamaður skyldi við hópinn á bryggjunni í Hrísey og hélt suður. Helst langaði hann þó að vera á leið suður í félagsheimilið Múlann enda er það greinilega þar sem hlutirnir gerast.

13.07.2005

Miðvikudaginn 13. júlí, 2005 – Viðhorf

Ekkiköllum fjölgar

Það er ekki góð tilfinning að finnast maður hafa vanrækt skyldu sína gagnvart þjóðfélaginu hvort sem það er í lengri eða skemmri tíma. Ég hef áður gerst sek um það og þekki þá vondu tilfinningu að horfa á allt fara í rugl án þess að hafa svo mikið sem mótmælt í hljóði.

Þess vegna hef ég ákveðið að skorast ekki undan ábyrgð núna. Oft er þörf en nú er nauðsyn. Ég ætla að tala um það sem fæstir þora að tala um. Ég ætla að vara þjóð mína við. Það getur enginn sagt að ég hafi ekki reynt. Ég vara ykkur hér með formlega við hinu hræðilega fyrirbæri ekkiköllum.

Ég veit ekki nákvæmlega hvenær ekkikallar komu fyrst fram á sjónarsviðið hér á landi. Lítillega er fjallað um þá í Íslendingasögunum en augljóst er að þeir hafa verið í miklum minnihluta í samfélaginu. Ég verð að játa að ég er enginn sagnfræðingur og geri mér fyllilega grein fyrir að það er fræðigrein (það stendur á Netinu). Ég les líka sjaldan sögubækur en eftir því sem ég man best þá var mjög sjaldan minnst á ekkikalla í sögu þegar ég var í skóla. Stundum var einn kafli tileinkaður þeim.

Þetta gefur mér tilefni til þess að álykta að einkar lítið hafi verið um ekkikalla allt fram að lokum nítjándu aldar að þeim fór að fjölga og hefur fjölgað dag frá degi síðan þá. Þessi þróun hefur ekki aðeins orðið á Íslandi heldur um allan heim. Nú síðast risu ekkikallar upp í Kúveit og heimtuðu kjörgengi og kosningarétt. Bræður okkar í Kúveit háðu drengilega baráttu en þurftu að lokum að lúta í lægra haldi fyrir ekkiköllunum.

Á Íslandi gerðist það sama upp úr þarsíðustu aldamótum og svo fór að árið 1920 fengu ekkikallar kosningarétt alveg eins og karlar. Nokkrar hetjur börðust gegn þessu og bentu m.a. á að ekkikallar væru svo miklar tilfinningaverur að það væri ómögulegt að leyfa þeim að taka mikilvægar ákvarðanir.

Næsta ekkikallafjölgunarsprengja varð upp úr 1970. Þeir hegðuðu sér vægast sagt vitleysislega. Gerðu athugasemdir við ótrúlegustu hluti eins og fegurðarsamkeppnir og stofnuðu meira að segja sérstakt ekkikallaframboð. Ekkikallarnir komust á þing og stuðluðu að hreinni og beinni sundrung á þingi. T.a.m. notuðu þeir ekki hálsbindi eins og venjulegt fólk.

Ekkikallar hafa í gegnum tíðina gert ýmiss konar óskunda. Á tíunda áratugnum fóru nokkrir þeirra að tala um ofbeldi. Þeir sögðu að hér á landi væru sifjaspell algeng og byrjuðu að mótmæla því. Það vissi auðvitað hver heilvita maður að slíkt ofbeldi var ekki til á Íslandi þótt það þekktist kannski meðal villimanna í hinum ósiðaða heimi.

En þetta blaður í ekkiköllum varð auðvitað til þess að kynna ósómann fyrir Íslendingum og nú hafa einhverjir kjánar tekið slíka hegðun upp. Þetta er gott dæmi um mjög slæm utanaðkomandi áhrif.

Ekkikallar voru líka frumkvöðlarnir að því að karlar fóru að lemja konur sínar. Þetta þekktist ekki fyrir tíma ekkikallanna. Friðhelgi einkalífsins var svo mikil að enginn Íslendingur hefði látið sér detta í hug að gera eitthvað slíkt.

Ekkikallar hafa ekki látið sér nægja að dreifa rógburði um land og þjóð. Þeir stóðu að uppbyggingu Landspítalans og heimtuðu að byggð yrðu barnaheimili. Á þeim tíma var varað við afleiðingunum. Það var augljóst að barnaheimili ykju aðeins á leti ekkikallanna. Í dag eru þeir auðvitað húðlatir eins og sjá má af vinnuframlagi þeirra á hinum mikla atvinnumarkaði. Þróunin, eða öllu heldur afturförin, heldur samt áfram og nú er svo komið að til stendur að gera barnaheimili gjaldfrjáls.

Ekkikallar eru nú orðnir ríflega 30% af þjóðinni miðað við síðustu talningu sem ég gerði. T.d. eru þeir 30% af körlum á Alþingi og 30% viðmælenda fjölmiðla. En ekkikallar eru reyndar ekki allir alslæmir. Sumir þeirra eru ósköp ljúfir og gera mestmegnis eins og þeim er sagt. En aðrir eru hræðilega öfgakenndir eins og sjá má á upptalningunni hér að ofan. Þeir heimta og heimta og þykjast vera að tala í nafni jafnréttis. Þeir hafa undanfarið kvartað undan því að ekkikallar fái ekki vinnu af því að þeir eru ekkikallar eða þá að þeir fái lægri laun. Þetta er auðvitað argasta vitleysa enda vita allir að það skiptir engu máli hvort maður er karl eða ekkikall. Það hefur lengi verið fullkomið jafnrétti á Íslandi. Mogginn benti m.a. á það árið 1926 í leiðara sínum. Ég var ekki til þá en ég veit að það sem stendur í Mogganum er ekkert rugl.

Það er samt verst að ekkikallar fá stundum að njóta þess að vera ekkikallar. Þeir eru frekar ráðnir í vinnu og fá miklu hærri laun. Ég veit reyndar engin dæmi þess en ég er viss um að allar rannsóknirnar sem sýna að það séu frekar karlar en ekkikallar sem komast áfram vegna kyns síns hljóti að vera byggðar á vitleysu.

Ég veit ekki hvernig við eigum að bregðast við þessari vá. Mér finnst liggja beinast við að viðhalda launaleynd, láta eins og nauðganir séu ekki til í alvörunni og réttlæta heimilisofbeldi með hegðun ekkikallanna sjálfra. Einhverjir Íslendingar hafa staðið sig vel í þessari baráttu en betur má ef duga skal! Við verðum að sameinast í baráttunni.

Nú hef ég alla vega gert það sem ég get. Ég hef varað þjóð mína við. Ég hef gert mína skyldu.